145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að leiðrétta orð hæstv. forsætisráðherra sem sagði hér fyrir skömmu að við værum núna á lengsta hagvaxtartímabili Íslandssögunnar. Það er einfaldlega ekki rétt. Lengsta hagvaxtartímabil Íslandssögunnar byrjaði 1994 og endaði 2008. Það eru 14 ár. Þetta er bara svolítið vandræðalegt eins og vandræðagangurinn hefur verið undanfarna daga. Það er ekki víst að þau viti þetta þannig að mig langaði bara að koma því á framfæri. Lengsta hagvaxtartímabilið var frá 1994 til 2008, það eru 14 ár, það er aðeins lengra en 2012 til 2016, bara þannig að það sé á hreinu.

Á þessum sorglega degi fyrir íslenska þjóð og heiður Alþingis langar mig að segja nokkur orð hérna, með leyfi forseta, en ekki hafa þau of mörg. Mig langar að vitna í Hávamál:

Ósnotur maður

hyggur sér alla vera

viðhlæjendur vini.

Þá það finnur

er að þingi kemur

að hann á formælendur fáa.

Ég hef ekkert fleira við þessa ríkisstjórn að segja nema um það sem verður rætt hér á eftir, vantraust á núverandi ríkisstjórn.