145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Stjórnarfarslegur stöðugleiki er kominn á í landinu eftir pólitískt umrót síðustu daga. Stjórnarflokkarnir hafa sameinast um að halda áfram að vinna að sínum góðu verkum með styrk og staðfestu til grundvallar. Markmið okkar allra er að skapa forsendur fyrir áframhaldandi hagsæld á Íslandi.

Ég er að stíga mín fyrstu skref í embætti utanríkisráðherra og tek við góðu búi forvera míns. Starf mitt miðast að því að halda áfram að vinna á þeim trausta grunni sem hann hefur skapað. Í því samhengi langar mig í upphafi að nefna nokkra þætti sérstaklega. Greiður aðgangur að erlendum mörkuðum er afar mikilvægur fyrir íslenskt þjóðarbú sem byggir hagsæld sína á útflutningi varnings, hugvits og menningar. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar mun ég beita mér fyrir öflugri hagsmunagæslu fyrir Ísland og áframhaldandi sókn á nýja markaði, ekki síst í nýmarkaðsríkjum. Þannig munum við saman skapa aukin tækifæri fyrir kraftmikið íslenskt atvinnulíf.

Orðspor þjóðar er fjöregg og mikilvægt að undirstrika að Ísland hefur mikilvæga rödd á alþjóðavísu. Við tölum fyrir lýðræðisumbótum, mannréttindum, jafnrétti og frelsi í viðskiptum. Mjög mikilvægt er að við stöndum vörð um orðspor Íslands og þau gildi sem við stöndum fyrir sem þjóðfélag. Sá stormur sem geisað hefur hér síðustu daga hefur vissulega beint sjónum að orðspori Íslands. Í ráðuneyti mínu er verið að greina áhrif þeirrar erlendu umfjöllunar sem hefur verið og sú vinna er ætíð í gangi. Brýnt er að meta skaðsemi umræðunnar og bregðast við á viðeigandi hátt. Í raun má segja að með sama hætti og Ísland var fyrsta fórnarlamb hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu sem reið yfir á árunum 2008 og 2009 höfum við verið fyrst í skotlínunni núna. Mikilvægt er að koma öllum upplýsingum á framfæri af yfirvegun og festu. Ráðuneyti mitt mun leggja allt sitt af mörkum til þeirra mála og við munum ekki slá slöku við í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Evrópskt öryggisumhverfi stendur á ákveðnum tímamótum. Alvarlegar áskoranir eru í okkar nánasta umhverfi. Hryðjuverkaógnin hefur undanfarin missiri verið viðvarandi hjá grannþjóðum okkar og afar mikilvægt er að Ísland haldi áfram að leggja sitt af mörkum til að efla öryggi og varnir landsins. Fyrir Alþingi liggur afgreiðsla þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Hér er um að ræða tímamótastefnu og ég tel afar mikilvægt að um hana náist sátt og unnt verði að afgreiða hana eins fljótt og auðið er.

Virðulegi forseti. Kæru Íslendingar. Á undanförnum árum hefur mikilsverður efnahagslegur árangur náðst. Þeirri vegferð er ekki lokið og mikilvægt er að við höldum áfram að vinna að góðum verkum. Saman munum við halda áfram að skapa forsendur til að þjóðin megi eflast og blómstra.