145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar óska hæstv. utanríkisráðherra til hamingju með alveg prýðilega eldskírn í jómfrúrræðu sinni áðan sem mér fannst bera merki um faglegri sýn á það starf sem bíður nýrrar ríkisstjórnar við að græða þau sár sem hin gamla skilur eftir sig en ég merkti hjá ýmsum þeim sem hafa talað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég veit að hún siglir inn í umhverfi þar sem er vant fólk sem bregður hvorki við sár né bana, þannig að hún nýtur mikils stuðnings þaðan. Víst er það að mér fannst ræða hennar efnisrík og betri en margra annarra.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að hér hefði geisað stormur. Það eru orð að sönnu. Í síðustu viku ríkti pólitísk og stjórnskipuleg kreppa sem ég man ekki eftir að hafi gerst dýpri síðustu 40 árin. Um tveggja daga skeið vissu menn ekki hvort hér var forsætisráðherra eða hver það var, sem betur fer hefur tekist að ráða bót á þeirri kreppu og landinu er nú loksins stjórnað aftur. Það breytir því ekki að það var hæstv. ríkisstjórn sem leiddi þá kreppu yfir landið. Sömuleiðis leiddi hún annað sem ekki var síður slæmt yfir landið og það var löskun á orðspori okkar og trúverðugleika sem þjóðar. Íslendingar eru hafðir að háði og spotti og athlægi á forsíðum fjölmiðla fyrir það með hvaða hætti þeir virðast í ásýnd umheimsins hafa tekið sér á brjósti leiðir til þess að notfæra sér lagaglufur til að koma peningum elítuparts þjóðarinnar í aflandseyjur. Þetta er partur af því sem við þurfum að takast á við.

Herra forseti. Mér hefur sýnst að enginn þeirra, ef frá er talinn hæstv. utanríkisráðherra, hafi í reynd drepið fingri á þetta vandamál. Vandinn er auðvitað sá að við þurfum að búa til nýjan samfélagssáttmála sem þarf að byggjast á heiðarleika, á einlægni, á jafnræði og jöfnuði. Ég verð að segja hæstv. forsætisráðherra til hróss að mér þótti örla á því á síðustu metrum hans í fyrra embætti í gær að hann skildi þetta. Þar fannst mér örla á þeirri auðmýkt sem þarf til þess að við getum tekið á þessu verkefni sameiginlega.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og allir vita, að ég tel að best hefði verið við þessar aðstæður að fara að því sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lýsti yfir að væri vilji hennar, sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lýsti yfir í Kastljósi í gær að væri vilji hennar, sem fráfarandi forsætisráðherra, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lýsti líka yfir að hann vildi, þ.e. að gengið yrði til tafarlausra kosninga. Það er það sem hefði dugað til að leggja grunn að nýjum samfélagssáttmála.

Svo hefði ég verið reiðubúinn með öllum þingmönnum stjórnarandstöðunnar til þess að taka á þeim tveimur verkum, og aðeins tveimur, sem eru mjög brýn eins og sakir standa í samfélaginu, ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra. Annað þessara verka er að koma í kring lagasetningu sem gerir okkur fært að fara í uppboð á aflandskrónum. Hitt verkefnið snýr hins vegar að innstreymi nýrra aflandskróna. Eitt af því sem ég tel að sé mjög brýnt að gera og hvorki hæstv. fjármálaráðherra né forsætisráðherra drápu á er vitaskuld að færa í lög heimildir til Seðlabankans um það að hann geti með einhverjum hætti hamlað innstreymi vegna vaxtamunarviðskipta. Þetta er það tvennt sem við hefðum þurft að ráðast á.

Það breytir ekki hinu, herra forseti, að ég hef notið samstarfs við hæstv. forsætisráðherra beggja megin ríkisstjórnarlínanna og hann hefur í hvívetna reynst mér traustur og heiðarlegur maður á þeim velli sem við mætumst endranær og ég dreg enga dul á það. Af þeim sem standa hans megin þá tel ég að hann sé bestur til þess að gegna embætti forsætisráðherra. En ég hefði óskað eftir því að hann gerði stuttan stans í því embætti og hefði tekið undir með okkur hinum um að reyna að láta rödd fólksins hljóma og láta fólkið reyna með sínum hætti, með því að virkja lýðræðið, að koma á þeirri sátt sem hæstv. forsætisráðherra talaði um í gær.

Eitt var það sem vantaði algjörlega í ræðu hans og hæstv. fjármálaráðherra og það er tilefni þeirra miklu atburða sem hér urðu, táknmynd trúnaðarbrestsins sem hæstv. fjármálaráðherra lýsti við eldgos í gær, sem er að við búum við stöðu þar sem partur af þjóðinni, elítuparturinn, notfærir sér lagaglufur til að fara með fé sitt á aflandseyjar þar sem það er geymt. Við vitum að megintilgangurinn er tvenns konar, þótt kannski ekki allir notfæri sér það. Það er í fyrsta lagi til að draga úr því að greiða skatta til samfélagsins og hins vegar að fela eignarhaldið.

Við þurfum að taka á því. Hvergi kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra eða forsætisráðherra í fyrsta lagi að það væri tilefni til þess eða í öðru lagi til hvaða ráða eigi að grípa. Ég tel að við eigum í fyrsta lagi, og er reiðubúinn til samstarfs við hæstv. forsætisráðherra, að fara í að kortleggja þessar eigur.

Það kom fram í þætti í sjónvarpinu í gær að að meðaltali væri 10% eigna þeirra sem búa í Evrópu í slíkum skjólum. Ef við gefum okkur að það sé kannski eitthvað minna á Íslandi, kannski 8%, þá þýðir það samt að 600 milljarðar af íslenskum eigum eru (Forseti hringir.) faldar í skattaskjólum. Við þurfum að fara í þetta.

Í öðru lagi þarf hæstv. forsætisráðherra að koma í lið með okkur til að upplýsa hvaða Íslendingar (Forseti hringir.) það eru sem eiga slíkar aflandseignir og eru í hópi kröfuhafa. Í þriðja lagi þarf hæstv. forsætisráðherra að koma í lið með okkur (Forseti hringir.) til að banna Íslendingum að eiga reikninga á aflandseyjum, í skattaparadísum, sem ekki (Forseti hringir.) uppfylla upplýsingaskyldur OECD. Í ljós kemur að það eru fjögur slík ríki. Í tveimur þeirra eiga (Forseti hringir.) Íslendingar 800 slíka reikninga. Þetta er það sem ég er reiðubúinn til að taka höndum saman við hæstv. forsætisráðherra og (Forseti hringir.) styðja hann í.