145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[13:04]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er kominn hér til að mæla fyrir vantrausti á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það er óvenjulegt að mælt sé fyrir vantrausti á ríkisstjórn á fyrsta starfsdegi hennar og kannski einsdæmi en við lifum einstaka tíma.

Vantraustið byggir á þeim alvarlega vanda sem upp er kominn í stjórnmálunum og okkur er öllum kunnur. Aflandsfélög eru bara til í þeim tilgangi að leyna eignarhaldi eða forðast skattheimtu. Um það eru ríkisskattstjóri og allir sérfræðingar sammála. Og formaður Samtaka atvinnulífsins tók sérstaklega undir það, í tímabærri fordæmingu á skattaskjólum, á ársfundi samtakanna í gær. Ef menn halda fé í skattaskjóli eru þeir að taka fé úr vinnu hér á landi og koma sér undan nauðsynlegu gagnsæi. Það fé skapar þá ekki hér störf og verðmæti og stendur ekki undir brýnum velferðarverkefnum eins og uppbyggingu Landspítalans. Við höfum, í glímunni við eftirleik hrunsins, óskað sérstaklega eftir því að þeir sem eiga eignir í útlöndum komi með þær heim til að styðja við endurreisn Íslands. Vegna alls þessa eru eignarhald og viðskipti í skattaskjólsfélagi óafsakanleg og ósamrýmanleg stjórnmálaþátttöku. Þess vegna er skipan ríkisstjórnarinnar í dag óásættanleg.

Þjóðin varð fyrir áfalli þegar hún sá Kastljóssþátt síðasta sunnudags. Það var ekkert venjulegt áfall. Ég held að við höfum öll upplifað sorg með þeim hætti sem ekki hefur gerst frá hruni. Skömm okkar var næstum því áþreifanleg. Þær tilfinningar urðu þeim mun sterkari vegna þess að Ísland og íslenskir ráðamenn voru til umfjöllunar á alþjóðlegum vettvangi á sama hátt og samkvæmt sömu viðmiðum og erlendir ráðamenn. Íslenskir fjölmiðlar fengu stuðning af samstarfi við erlenda miðla og það samstarf jók trúverðugleika fréttaflutningsins í okkar augum. Ríkisútvarpið, sem hefur glímt við linnulausar ofsóknir ríkisstjórnarinnar allt þetta kjörtímabil, fékk uppreist æru. Panama-skjölin eru ekki hefðbundið íslenskt klúður þar sem ráðamenn þrasa við gagnrýnendur um efnisatriði mála, ásaka fjölmiðla um ofsóknir, túlka staðreyndir í þessa átt eða aðra eða halda því fram að allt annað eigi að eiga við þá en alla aðra. Í þetta sinn erum við öll í beinni. Það er engin leið að fela sig undan kastljósi heimsins, engin leið að reyna að halda því fram að önnur viðmið gildi hér en í öðrum löndum.

En þessi tilfinning sorgar og skammar gat af sér samstöðu og von. Strax á sunnudagskvöldið stóðu leikhúsgestir í Borgarleikhúsinu á fætur og sungu þjóðsönginn fullum hálsi. Ekki til að berja sér á brjóst í þjóðernisrembingi heldur til að minna sig á að Ísland tilheyrir þeim. Og þessi sami andi sveif yfir vötnum í mótmælunum hér á Austurvelli á mánudag sem eiga sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni. Ekki bara voru þau fjölmennari en dæmi eru um frá hruni heldur voru þau líka friðsæl og kærleiksrík. Þar voru ekki bara kjósendur stjórnarandstöðunnar. Maður skynjaði að þarna var kominn saman þverskurður þjóðarinnar. Kjósendur allra flokka, fólk með ólíkar lífsskoðanir, sumir betur stæðir og aðrir verr. Það sem sameinaði alla var sú krafa að hlustað yrði á ákall þjóðarinnar um siðbót í stjórnmálum og sú von að þrátt fyrir allt væri mögulegt að ná þeirri siðbót fram.

Þetta minnti mig á dagana eftir hrun þegar ókunnugt fólk úti á götu, með áhyggjuhrukkur á enni, lagði lykkju á leið sína til að óska óbreyttum stjórnarþingmanni alls góðs. Þegar fólk batt enn von við stjórnmálin. Sú von hefur síðan horfið. Á einhverjum tímapunkti, sem erfitt er að ákvarða, fékk fólk skömm á allri pólitík og í skugga þeirrar skammar stöndum við í þessum sal enn þann dag í dag. Okkur hefur ekki tekist að endurvekja trúnaðinn við fólkið sem einu sinni lagði lykkju á leið sína til að hvetja og styðja. Leiðin til þess að endurvekja þann trúnað hlýtur að felast í því að tala af alvöru, um raunveruleg áhyggjuefni fólks, og segja ávallt satt.

Reynsla síðustu missira færir okkur heim sanninn um mikilvægi þess að breyta í grundvallaratriðum efnahagslegum leikreglum landsins. Um áratugaskeið hefur íslenskt efnahagslíf einkennst af því að vel tengdir viðskiptamenn hafa auðgast vegna þess að stjórnmálamenn hafa tryggt þeim aðgang að takmarkaðri aðstöðu eða ríkiseignum. Í skjóli þeirrar skekkju hefur vaxið hér og dafnað sérstök tegund kapítalista, þeirra sem nærast á annarra manna fé og leggja meiri áherslu á taumlausan arð í eigin vasa en raunverulega sköpun verðmæta sem nýtast samfélaginu öllu. Það er þessi tegund sem flykktist í skattaskjól til að forðast að leggja af mörkum eftir efnum.

Á síðustu missirum hafa Borgunarhneykslið og óheftar arðgreiðslur tryggingafélaga á kostnað almennings sýnt að sumir hafa ekkert lært — og því miður engu gleymt. Þessu verður nú að linna.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér að flytja hér hefðbundna framsöguræðu með vantrausti, tala um ríkisstjórn sem hefur brugðist, nýja útgáfu hennar sem er andvana fædd og þorir ekki í kosningar, eins og allir stjórnarandstæðingar á öllum tímum hafa gert við slíkar aðstæður. En ég get ekki meir. Ég held að tímarnir krefjist af okkur nýrrar alvöru. Eftir harkaleg orðaskipti okkar hæstv. fjármálaráðherra hér í þingsal í gær fór ég heim og hugsaði. Ég skil þau harkalegu orð sem hann lét falla í minn garð í málsvörn sinni hér. Ég skil það vegna þess að ég hef sjálfur setið á þessum ráðherrabekk og að mér hefur líka verið sótt. Ég hef setið og heyrt þúsundir mótmæla stefnu minni og þeirrar ríkisstjórnar sem ég var hluti af. Ég hef varist af hörku og verið algerlega sannfærður um að ég vissi best og að leiðin sem við hefðum valið væri sú eina rétta. Allir hlytu á endanum að sjá að ég hefði rétt fyrir mér. En ég get ekki horft fram hjá því að afleiðingin af þeirri afstöðu var stærsta pólitíska tap Íslandssögunnar.

Vantraust á nýja ríkisstjórn er hér til umræðu. Fyrir því eru efnisrök. En fyrir liggur samþykkt vantrausts þjóðarinnar á íslenska pólitík. Það getur enginn neitað því. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í fyrradag að stjórnarandstaðan væri líka í rusli. Og við höfum vissulega öll beðið gríðarlegt tjón af stjórnmálum sem gera lítið úr fólki, afneita staðreyndum, upphefja persónupólitík og breyta allri alvöru í þras og garg. Um allan heim er fólk að snúa baki við stjórnmálum sem það upplifir að einkennist af alvöruleysi og eigin hagsmunum. Við erum á sama báti. Við getum ekki haldið áfram bardaganum á vettvangi stjórnmálanna á þann veg að öllu góðu fólki ofbjóði það sem það heyrir og sér. Við verðum saman að bjarga stjórnmálunum til þess að verða að sem mestu gagni. Því hvað sameinar okkur hér í þessum sal? Jú, löngunin til að gera betur fyrir íslenska þjóð. Við skulum rækta hana saman. Það er hægt.

Fjöldi fólks í samfélaginu hefur talað fyrir nýju samtali síðustu daga. Ég læt duga, af vettvangi stjórnmálanna, að nefna hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og hæstv. fyrrverandi ráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem báðar lögðu gott til í viðtölum í gærkvöldi og buðu upp á nýjar leiðir. Það þarf nefnilega nýtt upphaf. Þingmenn meiri hlutans geta kosið að lesa í þessa vantrauststillögu aðför að sér. En í henni felst hins vegar útrétt hönd um betri samskipti á nýjum forsendum. Með ríkisstjórnarskiptunum hafið þið sjálf viðurkennt að umboð ykkar er brostið — en ekki gengið nógu langt til þess að ljúka málinu. Um það vitna viðbrögð samfélagsins. Við skulum ekki halda áfram átökum átakanna vegna. Þau eru óhjákvæmileg afleiðing ef haldið verður áfram á sömu braut. Í boði er hins vegar samtal um lausnir sem varðað geta veginn fram á við, tryggt framgang brýnna mála og kosningar svo fljótt sem verða má og ábyrgt getur talist.

Virðulegi forseti. Á myrkum haustdögum fyrir nærri átta árum stóðum við mörg hér í þessum sal frammi fyrir því að efnahagslegt sjálfstæði Íslands var í húfi, hvorki meira né minna, og að almenningur gæti búist við því að viðbragð við þeirri stöðu væri fólkinu í þessum sal algerlega ofviða. En þrátt fyrir allt sem við segjum hvert um annað alla daga í þessum sal tókst okkur það. Þessi átta ár hafa einkennst af tvennu: Skynsamlegum viðbrögðum um allt það sem mestu hefur skipt en hatursfullri og niðurrífandi stjórnmálaumræðu um allt hitt. Ríkisstjórnir allt frá hruni hafa tekið grundvallarákvarðanir sem hafa bjargað Íslandi. Neyðarlögin, efnahagsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, löggjöf um að fella þrotabúin undir höft og samningarnir við kröfuhafana. Allir stjórnmálaflokkar hafa komið að einhverjum þessara ákvarðana og sumir að öllum. Allt hefur þetta skilað okkur árangri sem vekur eftirtekt um allan heim.

Hugsið ykkur. Á meðan við vorum að rífast tókst okkur að bjarga efnahagslegu sjálfstæði Íslands. Eigum við að leyfa okkur að láta okkur dreyma um hvað við gætum gert ef við ynnum saman?