145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[13:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Til umræðu er tillaga stjórnarandstöðunnar að Alþingi álykti að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. Alþingi lýsi þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga svo fljótt sem við verði komið.

Það er eðlilegt að stjórnarandstaðan skuli vilji víkja ríkjandi stjórn frá völdum. Það er hlutverk hennar. En að setja fram vantrauststillögu innan við sólarhring eftir að ný stjórn tekur við völdum er nokkuð rösklega gert. (Gripið fram í.)Ég hefði talið að vantraust ætti að byggjast á því að ríkisstjórn hefði ekki auðnast að standa við það sem hún ætlaði sér, enda eru ríkisstjórnir kosnar til að sinna ákveðnum verkum.

Ég fór yfir það í nokkuð ítarlegu máli í umræðum í þinginu í morgun hvaða verk síðasta ríkisstjórn hefur unnið. Núverandi ríkisstjórn hyggst halda áfram á sömu braut og afgreiða mál sem mikilvægt er að klára. Afnám hafta er þar að sjálfsögðu langfyrirferðarmest.

Áður en lengra er haldið vil ég gjarnan biðla til stjórnarandstöðunnar um að hún láti ekki sitt eftir liggja til að greiða því máli leið í gegnum þingið. Þetta einstaka mál er umfangsmikið og úrlausn þess mun hafa áhrif til langrar framtíðar. Mikill óróleiki á pólitíska sviðinu gæti grafið undan þeirri vinnu sem svo nauðsynlegt er að klára.

Þótt ekki kæmi annað til tel ég óráðlegt að boða til kosninga og mér finnst í raun óábyrgt af stjórnarandstöðunni að leggja það til. Samþykkt tillögu um þingrof mundi leiða til þess að gengið yrði til kosninga innan 45 daga. Til undirbúnings þeim þyrfti alla vega nokkrar vikur. Það yrði því í fyrsta lagi hægt að kjósa um miðjan maí eða síðari hluta hans eða á svipuðum tíma og fyrirhugað er að halda útboð á gjaldeyri vegna losunar hafta.

Ég tel að lítil skynsemi sé í því að standa í kosningabaráttu á sama tíma og stjórnvöld eru enn að fást við eitt vandasamasta úrlausnarefni sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir. Þá er á það að líta að fyrirhugaðar eru kosningar til forseta Íslands í júní. Því mundi kosningabarátta alþingiskosninga og forsetakosninga skarast og vart er hægt að halda því fram að það sé heppilegt fyrirkomulag.

Ég er svolítið undrandi á því að stjórnarandstaðan skuli vilja leggja í þá för þegar svona mikið er undir. Ég er alls ekki að halda því fram að í núverandi ríkisstjórn sé eina fólkið sem geti klárað verkið. En það verður þó að geta þess að ríkisstjórn sömu flokka hóf verkið og ég sé ákveðna skynsemi í því að hún fái svigrúm til að klára það á sömu nótum og verkið hefur gengið fram.

Það hefur verið spurt undanfarið hvers vegna þessi ríkisstjórn sé sú sem best er treystandi til að ljúka verkefni eins og afnámi hafta. Ég spyr á móti: Hvers vegna ættum við að treysta stjórnarandstöðunni fyrir því verkefni? Hefur hún sýnt það með orðum sínum eða verkum að hún sé betur í stakk búin til að leiða þetta verkefni farsællega til lykta? Ég er ekki viss um að svo sé.

Í þessu ferli hefur stjórnarandstaðan gagnrýnt flest það sem gert hefur verið en sjaldnast lagt til lausnir. Nálgun stjórnarandstöðunnar hefur alltaf verið sú að hún hefði ekki trú á aðferðunum. En þær aðferðir og áætlun ríkisstjórnarinnar um afnám fjármagnshafta sem byggist á þeim hafa, eins og flestum er nú orðið ljóst, skilað árangri sem er án fordæma í fjármálasögu heimsins, svo vitnað sé í Lee Buchheit. Það er eðlilegt að þeir sem skilað hafa þessum árangri ljúki verkinu með sömu stefnufestu og reynt hefur á hingað til.

Virðulegi forseti. Á þessu kjörtímabili hefur stefna og vinna ríkisstjórnarinnar um að bæta hag þjóðarinnar gjörbreytt stöðu á vinnumarkaði, haldið niðri verðbólgu svo lengi að ekki eru áður slík dæmi þess, afnumið vörugjöld og tolla, lækkað tekjuskatta, svo dæmi séu nefnd. Afleiðingin er sú að kaupmáttur fólks hefur vaxið hraðar og meira en dæmi eru um áður. Þetta eru ekki innantóm orð héðan úr ræðustól Alþingis, þetta eru staðreyndir.

En verkefnunum er ekki lokið. Fram undan eru mikilvæg mál sem þarf að ljúka, m.a. liggur fyrir samkomulag við vinnumarkaðinn um húsnæðismál og lækkun tryggingagjalds til að greiða enn betur fyrir því að hagsæld og velferð heimilanna í landinu aukist af þeim kjarasamningum sem fyrir liggja og aðgerðum sem þurfa að fylgja.

Um öll þau mál og fleiri til þurfum við að sameinast á Alþingi. Ég tel að það ætti að vera hægur leikur í raun, því að ég hef reynt það í störfum með fólki úr öllum stjórnmálaflokkum á þinginu að það er sameiginlegt markmið okkar allra í salnum að vinna okkar verði til að bæta hag fólksins í landinu.

Ég hvet því samstarfsfólk mitt á Alþingi, hvar í flokki sem það stendur, til að sameinast um það sameiginlega markmið okkar á komandi mánuðum og um þau verkefni sem leggja þarf áherslu á í þeim tilgangi. Ég heiti því að ríkisstjórn Íslands mun vinna heils hugar að því héðan í frá eins og hingað til. Því legg ég eindregið til að við fellum báðar tillögur stjórnarandstöðunnar í dag.