145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[14:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það er nokkuð ljóst að það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að vikan hefur pólitískt verið mjög viðburðarík. Orðið hafa pólitískar breytingar. Það þarf ekki að rekja þá viku sem er að líða, alla þá fjölmiðlaumfjöllun og annað, í seinni tíð er mjög langt síðan slíkt hefur verið. Við höfum séð forsætisráðherra stíga til hliðar út úr ríkisstjórn og myndað aðra ríkisstjórn með nýjum forsætisráðherra en með sama stjórnarmeirihluta. Það er ekki oft sem það gerist á miðju kjörtímabili.

Því máli sem hefur verið í umræðunni alla þessa viku, eftir frægan Kastljóssþátt sem var í sjónvarpi, held ég að sé ekki lokið. Ég held að fleiri mál eigi eftir að koma upp. Við erum rétt að byrja að sjá þetta, hér eru í raun alveg ótrúlega mörg íslensk fyrirtæki sem voru í aðdraganda efnahagshrunsins með einum eða öðrum hætti tengd við skattaskjól. Einungis lítið er komið upp af þessu enn sem komið er. Við munum ugglaust sjá það áfram á næstu vikum og mánuðum.

Umræðan er um skattaskjól. Skattaskjól eru ekki í lagi. Það er ekki í lagi að vera með peninga í skjóli frá sköttum og í skattaskjólum. Þau þarf að uppræta.

Hér er mikið talað um rannsóknir, að upplýsa þurfi málin og fá allt upp á borðið o.s.frv. Spurningin er samt: Hvernig getum við til framtíðar upprætt það að peningar séu geymdir í skattaskjólum?

Eins og ég sagði áðan á mikið af því sem komið hefur upp í umræðunni rætur sínar að rekja til áranna fyrir efnahagshrunið. Ég held að það sé ekki algengt í dag að menn stofni fyrirtæki til þess að skýla fjármagni frá skatti í svokölluðum skattaskjólum. Við þurfum að fara yfir það á Alþingi með þverpólitískri aðkomu með hvaða hætti hægt sé að uppræta skattaskjól. Þarf löggjafarvaldið að breyta lögum? Þarf að breyta lögum þannig að þetta gerist ekki á nýjan leik? Við erum að fara að aflétta gjaldeyrishöftum sem um ríkir þverpólitísk samstaða. Þurfum við að bregðast við í tengslum við það með einhverjum hætti? Þarf löggjafarvaldið að bregðast við einhvern veginn í tengslum við það þannig að þetta gerist ekki á nýjan leik?

Virðulegur forseti. Þetta eru verkefni sem við eigum að geta á Alþingi Íslendinga, núverandi löggjafarþingi, tekið þverpólitískar umræður um, farið ofan í þessi mál og leitað að því hvort gera þurfi einhverjar breytingar.

Þegar forsætisráðherra hefur stigið til hliðar og mynduð hefur verið ný ríkisstjórn undir forustu Sigurðar Inga Jóhannssonar er fullkomlega eðlilegt að samhliða því sem við förum í þá þverpólitísku vinnu klári sú ríkisstjórn þau stóru verkefni sem liggja undir og með núverandi stjórnarmeirihluta, með stjórnarmeirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Forsætisráðherra hefur stigið til hliðar. Það var ákall um það í samfélaginu að hann stigi til hliðar. Það er líka kallað eftir því í samfélaginu að losun gjaldeyrishafta verði flýtt. Það er mikilvægt fyrir einstaklinga og atvinnulíf í landinu. Það er kallað eftir því að við klárum þau mál sem snúa að húsnæðismálum og eru hluti af kjarasamningum og liggja fyrir þinginu. Það er kallað eftir því hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum að lækka tryggingagjald í landinu. Til grundvallar því liggur frumvarp. Það er kallað eftir því að minnka kostnaðarþátttöku sjúklinga. Þessa löggjafarþings bíður frumvarp sem snýr að því. Svona mætti áfram telja.

Virðulegur forseti. Á þessum grunni er mikilvægt að hafna þeirri tillögu sem stjórnarandstaðan leggur fram hér í dag. Þó er ekki þar með sagt að Alþingi Íslendinga eigi ekki að taka umræður um það sem hefur verið til umfjöllunar síðustu vikur og verður til umfjöllunar næstu vikur og mánuði. Við eigum að geta gert það af yfirvegun og á þverpólitískan hátt. Forsætisráðherra gengur út úr ríkisstjórn til að hægt sé að halda áfram þeim verkum sem ríkisstjórn lagði af stað með, hann hefur stigið til hliðar. Við getum sem löggjafarþing tekið umræðu um þessi mál áfram og við skulum gera það. Ég kalla eftir því. Við skulum þá gera það á lausnamiðaðan hátt. Hvaða breytingar þurfum við að sjá? Þarf að breyta löggjöf á Íslandi varðandi þessi mál? Með hvaða hætti þarf þá að breyta löggjöf á Íslandi varðandi þau? Ég held að það sé full ástæða til að það sé þverpólitísk aðkoma að þessu verkefni. Það er engin ástæða til að nýsettri ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar sem hefur ríflegan meiri hluta á Alþingi sé vikið frá á fyrsta degi. Hennar bíða mörg önnur verkefni sem vonandi verður hægt að fá þverpólitíska aðkomu að, en það er ekki víst að það verði hægt með þau öll. Þau verkefni ætlar þessi ríkisstjórn að klára og þá verður gengið til kosninga. Þegar þau stóru mál verða búin óttast enginn að ganga til kosninga.

Þetta er ástæða þess að mikilvægt er að hafna vantrauststillögu sem lögð er fram af stjórnarandstöðunni hér í dag, virðulegur forseti.