145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[14:35]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ein af þeim setningum sem fokið hafa síðustu daga í þessari umræðu er að flókið sé að eiga peninga á Íslandi. Það er hæstv. núverandi forsætisráðherra sem á þá setningu. Hún er ekki mjög lýsandi fyrir pólitíska rétthugsun en ég vil reyna að endurorða hana með því að segja: Það er flókið að eiga eina tegund af peningum á Íslandi.

Það sem ég og félagar mínir í Bjartri framtíð höfum haldið fram á síðustu árum er að við þurfum nýjan gjaldmiðil í landinu. En því hefur verið haldið fram, m.a. af fráfarandi forsætisráðherra, að krónan sé besti gjaldmiðillinn. Við höfum reynt að fá umræðu um þetta og reynt að fá samþykkta tillögu um að Ísland móti sér sjálfstæða stefnu og sérstaka stefnu í gjaldmiðilsmálum en talsmenn stjórnarflokkanna hafa ekki séð ástæðu til að ræða það sérstaklega við okkur. Síðan kemur í ljós að sjálfur höfuðpaurinn, forsætisráðherra, hefur geymt peningana sína í annarri mynt.

Þetta er meðal þeirra spurninga sem ríkisstjórnin á eftir að ræða við okkur í stjórnarandstöðunni á komandi vikum og mánuðum ef hún ætlar að halda svona áfram. Það er nefnilega þannig að það væri pólitískt mjög klókt af okkur sem erum í stjórnarandstöðu að leyfa ríkisstjórninni að skipuleggja undanhaldið þannig að ráðherrarnir neyðist til að skylmast aftur fyrir sig, verjast á flótta, eins og þeir ætla að gera næstu vikur og mánuði.

Þeir þurfa líka að svara þeirri spurningu sem upp er komin á milli formanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, vegna þess að nú eru deilur sprottnar upp á milli þeirra, hvort eign hæstv. fjármálaráðherra í aflandsfélagi sé sambærileg eign fyrrverandi forsætisráðherra í aflandsfélagi. Fyrrverandi forsætisráðherra vill meina að svo sé. Hann er formaður Framsóknarflokksins. Formaður Sjálfstæðisflokksins vill meina að svo sé ekki, það sé mikill munur þar á. Hver ætli sé skoðun hæstv. forsætisráðherra í þeim efnum? Ætli hann sé sammála formanni Framsóknarflokksins eða er hann sammála hæstv. fjármálaráðherra? Þetta er meðal þeirra spurninga sem við munum vilja fá svör við. Eru þetta sambærileg mál? Er hæstv. forsætisráðherra sömu skoðunar og formaður hans eða fjármálaráðherra?

Það hefur nokkuð borið á því í málflutningi þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn að það sé óvenjulegt og ef til vill ósanngjarnt að hún þurfi að standa af sér tillögu um vantraust á fyrsta starfsdegi sínum. En það er mikið vantraust á þessari ríkisstjórn. Það fer ekki á milli mála. Ég man aldrei til þess, og það er líklega einsdæmi í sögunni, að ríkisstjórn taki til starfa með fjórðungstraust. 25–26% landsmanna bera traust til ríkisstjórnarinnar. Er óeðlilegt að slík ríkisstjórn, sem fer af stað með jafn áleitnum spurningum, með jafn lítið traust, sanni það í kosningum í þingsal að hún hafi tilskilinn meiri hluta? Er óeðlilegt að þeir sem eru í stjórnarandstöðu biðji þá sem eru fótgönguliðar ríkisstjórnarinnar að lýsa yfir sérstökum og sjálfstæðum stuðningi við ríkisstjórnina? Að þeir gangist við því að þeir séu sammála þeirri atburðarás sem er farin af stað? Að hver og einn, pólitískt og persónulega, gangist í ábyrgð fyrir þessa skipan mála? Það er fullkomlega eðlilegt. Og það er fullkomlega eðlilegt að kjósendur í landinu fái að taka afstöðu til þessara stjórnmálamanna, hvers og eins, út frá gjörðum þeirra í þingsal í dag. Það er engin spurning.

Það sem núna blasir við og stjórnarliðar endurtaka í sífellu er að þeir verði að fá að klára losun hafta, eins og enginn annar geti gert það en þeir. Hafa ekki þrjár undanfarnar ríkisstjórnir komið að því verkefni ásamt Seðlabankanum og embættismönnum? Hefur ekki gengið ljómandi vel að láta þann bolta ganga á milli mismunandi ríkisstjórna? Það held ég. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Verkefnið sem blasir við er að fá dagsetningu á þessum kosningum upp úr þeim stjórnarherrum sem teknir eru við, vegna þess að við treystum því ekki að þeir ætli að boða til kosninga í haust. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Þeir sögðust ætla að boða til kosninga á fyrri hluta kjörtímabilsins um Evrópusambandið. Hvar eru þær kosningar? Hvenær voru þær kosningar? Missti ég af þeim? Voru þær innan Sjálfstæðisflokksins? Hvernig var það framkvæmt? (Gripið fram í.) Við verðum að fá dagsetningu upp úr stjórnarherrunum, hvenær ætla þeir að boða til kosninga? Þeir þurfa að dagsetja þær og þá getum við farið að tala saman.