145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[14:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ástæða þeirrar vantrauststillögu sem hér er flutt er augljós. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki traust þjóðarinnar vegna stærsta hneykslismáls íslenskrar stjórnmálasögu. Krafan um kosningar er krafa þjóðarinnar um að þvo skömm þessa hneykslis af sér og skila skömminni þangað sem hún á heima.

Þegar ljóst var að fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefði leynt Tortólufélagi skráðu á eiginkonu hans var flutningur vantrauststillögu óumflýjanlegur. Viðbrögð fyrrverandi forsætisráðherra og flokksfélaga hans við uppljóstrununum voru í fyrstu spuni, síðan árásir á þá sem fluttu fréttirnar og voguðu sér að hafa á þeim skoðun. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði fyrrverandi forsætisráðherra átt að segja af sér af sjálfsdáðum eða flokksfélagar hans að þvinga hann til þess hið snarasta. Fjöldamótmæli og alþjóðleg umfjöllun breyttu miklu en það þurfti að lokum Sjálfstæðisflokkinn og forseta lýðveldisins til að setja fyrrverandi forsætisráðherra stólinn fyrir dyrnar.

Vansæmd Framsóknarflokksins í þessu máli er mikil. Enginn forustumanna flokksins tók af skarið og krafðist afsagnar forsætisráðherra. Núverandi hæstv. forsætisráðherra gat ekki einu sinni gagnrýnt fyrrverandi forsætisráðherra eftir Kastljóssþáttinn um Panama-skjölin síðastliðinn sunnudag. Ekkert í framgöngu hæstv. forsætisráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar síðustu daga bendir til þess að hann skilji alvarleika málsins. Hann hefur ekki beðist afsökunar eða fordæmt leynimakk fyrirrennara síns. Enginn forustumaður flokksins hefur krafist þess að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hætti sem formaður flokksins og hverfi af þingi utan einn, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, sem tjáði þessa afstöðu sína fyrst nú í morgun. Á meðan hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Framsóknarflokksins er óhætt að kalla núverandi ríkisstjórn leppstjórn Sigmundar Davíðs. Engar mikilvægar ákvarðanir verða teknar án þess að formaður flokksins komi þar að með einum eða öðrum hætti. Formaður Framsóknarflokksins mun ekki sitja við ríkisstjórnarborðið en áhrifa hans þar mun gæta eftir sem áður. Ríkisstjórnin hefur fengið andlitslyftingu en hún er enn sama ríkisstjórnin, leppstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Hæstv. forsætisráðherra á án efa fleygustu ummælin um hneykslið sem hér er til umræðu. „Það er auðvitað augljóslega talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi,“ sagði hæstv. ráðherra. „Það er auðvitað augljóslega talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi,“ sagði forsætisráðherra ríkisstjórnar sem slær sér á brjóst fyrir að vera þjóðlegri en aðrar. Íslenskur almenningur situr uppi með krónuna sem formaður Framsóknarflokksins þreytist aldrei á að lofa en notar hana síðan ekki sjálfur þegar fela þarf peninga erlendis. Einn daginn er talað um trú á landinu en þann næsta að leynifélög í skattaparadísum séu eðlileg og sjálfsögð. Hæstv. forsætisráðherra er fullur samúðar þegar vandamál auðmanna eru annars vegar og skilur síðan ekkert í því að honum sé ekki treyst til að takast á við þá staðreynd að Íslendingar eru óvenjufjölmennir í þeim leynigögnum sem nú hafa verið afhjúpuð. 600 Íslendingar hið minnsta hafa átt leynifélög á aflandseyjum. Hér er þó aðeins um einn banka af þremur að ræða, gögnin um hina tvo eru enn hulin. Á næstu dögum og vikum verða frekari upplýsingar um aflandsfélög gerðar opinberar. Reiði og ólga í samfélaginu mun ekki minnka við þær upplýsingar.

Hæstv. forseti. Ég minntist áðan á vansæmd Framsóknarflokksins. Á 100 ára afmæli flokksins hefur framganga hans ekki aðeins skaðað traust og tiltrú í íslenskum stjórnmálum heldur einnig orðspor landsins á alþjóðlegum vettvangi.

Vansæmd Sjálfstæðisflokksins er síst minni. Skuggi aflandsfélaga liggur yfir flokknum. Heil 70% landsmanna vilja að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson víki. Hæstv. fjármálaráðherra vill klára ákveðin verk en þjóðin treystir honum augljóslega ekki til þess. Þjóðin treystir ekki ríkisstjórninni til að klára verkin sín enda verða þau ekki kláruð því að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar er andvana fædd.

Við sem stöndum að þessari vantrauststillögu ætlumst til þess að hver einasti þingmaður stjórnarinnar stígi hér fram, geri grein fyrir atkvæði sínu og skýri afstöðu sína fyrir kjósendum.

Við viljum þingrof og kosningar strax. (BirgJ: Heyr, heyr.)