145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[14:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég treysti þessari nýsettu hæstv. ríkisstjórn, því að ég trúi á það stjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í þeim meiri hluta sem þessi nýsetta hæstv. ríkisstjórn hefur á bak við sig. Traustur meiri hluti, virðulegi forseti, kjörinna fulltrúa. Hér eru þjóðhagslegir hagsmunir í algjörum forgangi og þau verkefni sem eru í farvegi þarf að klára. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim atburðum sem hafa teiknast hér upp. Staðan er grafalvarleg. Það er í raun afar heilbrigt að ræða út frá þeirri stöðu þá tillögu sem er á dagskrá vegna þess að hún færir okkur nær sanni um það hvernig þessi nýsetta ríkisstjórn á að klára þau verkefni sem ég kom inn á. Það snýst kannski ekki síst um að tryggja stjórnmálalegan stöðugleika við þessar aðstæður. En um leið á það jafnframt að snúast um að skerpa á að áfram sé það skýrt að það er ekki liðið að peningum sé komið undan í aflandsfélög, í skattaskjól og ekki greitt sé til samfélagsins. Segja má að það jákvæða við þessa umræðu og þann mikla gagnaleka sem við höfum orðið vitni að og á reyndar enn eftir að koma í ljós frekari upplýsingar þaðan, mun skerpa á þessari sýn og móta enn frekar viðhorf og þá pólitísku skoðun allra flokka, þá skoðun þjóðfélagsins, allra, að ekki á að líðast að aflandsfélög séu notuð í þeim tilgangi að fela eignarhald og koma sér undan að greiða skatta. Það hefur aldrei verið og á ekki að vera.

Þingflokkarnir hafa nú samþykkt að gera breytingar, nauðsynlegar breytingar. Áherslan er augljóslega á að tryggja stöðugt ástand og samfellu í þeirri vinnu sem er fram undan. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar litið er til þeirra verkefna sem þegar eru í farvegi og þarf að leggja áherslu á, ekki síst að leggja áherslu á stöðugleika, pólitískan stöðugleika og viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Því er brýnt að horfa til þess að halda kúrs í þeim meginverkefnum.

Það er rétt sem fram hefur komið að pólitík snýst að hluta til um völd og í þágu lýðræðis höfum við skapað því ákveðið form. Við verðum að virða þetta form, halda ró, sýna festu, stillingu og yfirvegun og koma þannig í veg fyrir stjórnleysi. Ég er ánægður með þingflokkana sem mynda hér meiri hluta, að bregðast við þessum aðstæðum, gera breytingar og taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegt var að taka, ákvarðanir sem munu halda stjórnun landsins gangandi og ljúka þeim mikilvægu verkefnum sem eru í farvegi. Það er eðlilegt að fólk mótmæli við slíkar aðstæður sem við höfum verið að ræða, að fólk láti vita hvað sé í lagi og hvað sé ekki í lagi. Því ákalli eigum við stjórnmálamenn að mæta og fylgja eftir með aðgerðum, viðeigandi lagabreytingum ef til þarf. Það er líka eðlilegt að fólk hafi skoðanir á því hvort kjörnir fulltrúar séu aðilar að aflandsfélögum. Eins og málum er háttað verðum við að meta það í ljósi laga, reglna og hagsmuna.

Þegar við ræðum þá tillögu sem liggur fyrir, um vantraust á ríkisstjórnina, verðum við að meta verkin og stöðuna. Þegar betur er skoðað og reynt að rýna hlutlægt þá stöðu og nálgast út frá þeim markmiðum sem lagt var upp með, þá verður ekki annað sagt en að þetta ríkisstjórnarsamstarf hafi verið árangursríkt. Skuldaleiðrétting stökkbreyttra lána heimilanna, umdeild aðgerð, já, látum það vera, flókin í framkvæmd en metnaðarfull efnahagsleg aðgerð. Hún tókst vel og án þess að verðbólguskot yrði eins og margir hrakspámenn töldu að yrði. Staðreyndin er sú að skuldir heimilanna hafa lækkað á því tímabili. Flóknar aðstæður voru á vinnumarkaði og kjarasamningar, þar kom ríkisstjórnin að lausn mála. Og niðurstaðan, hver er hún? Aukinn kaupmáttur og hann hefur reyndar aldrei verið meiri vegna þess að samhliða voru skattar lækkaðir, almenn vörugjöld afnumin og tollar lækkaðir sem hafa verðhjöðnunaráhrif.

Fjárlögum hefur verið skilað með afgangi í þrígang og áætlun um losun hafta hefur leitt af sér að þjóðarbúið hefur ekki staðið eins vel í áratugi. Á sama tíma hefur náðst sögulegur verðstöðugleiki. Að öðru jöfnu hefði verið tæpt ár í kosningar. En þrátt fyrir það, efnahagslegan árangur og stöðugleika, er vilji til þess að setja þennan árangur (Forseti hringir.) í uppnám.

Ég vil halda þessu samstarfi meiri hlutans áfram til að klára verkin á grundvelli árangurs og klára mikilvæg verkefni. Þar er mikilvægast losun hafta eins og komið hefur fram í máli margra hv. þingmanna (ÖS: Klárum það …) og jafnframt stjórnarandstöðunnar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur lýst yfir samvinnufúsum vilja til þess. (KLM: Klárum það á tveimur mánuðum …) Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Ég get ekki samþykkt þá tillögu sem er hér um vantraust á þessa ríkisstjórn. Látum árangurinn tala og klárum þau verkefni sem skipta máli. (Gripið fram í: Viðurkenndu þá …)