145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[15:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það þarf ekki að koma hv. þingmönnum mjög á óvart en ég er nokkuð á sama stað og sá hv. þingmaður sem hér talaði síðastur. Það liggur auðvitað fyrir að þingrof með þeim hætti sem stjórnarandstaðan leggur til verður ekki nema ríkisstjórn sé komin í þá stöðu að meiri hluti hennar á þingi sé fallinn og ekki sé möguleiki á að mynda ríkisstjórn sem styðst við þingmeirihluta. Auðvitað hefur stjórnarandstaðan rétt til að bera fram tillögur af þessu tagi og þá er tekist á um þær í atkvæðagreiðslum, en segja má að í ljósi atburða vikunnar hefur þessi tillaga orðið nokkuð sérkennileg í ljósi þess að ný ríkisstjórn er tekin við sem augljóslega styðst við sterkan meiri hluta í þinginu.

Við höfum dæmi um að ríkisstjórnir hafa setið á grundvelli veiks meiri hluta og við slíkar aðstæður, þegar óvissa er uppi um þann stuðning sem ríkisstjórnir njóta raunverulega innan þingsins, er eðlilegt að látið sé á það reyna. En ég segi þetta vegna þess að mér finnst sú forsenda sem lagt er upp með, að hér eigi að bera fram vantraust á ríkisstjórn og boða til kosninga ári fyrr en gert er ráð fyrir í stjórnarskrá, ekki eiga heima í þessari umræðu. Auðvitað getur stjórnarandstaðan haft fjölmargar athugasemdir við stöðu ríkisstjórnarinnar og verk hennar. Þingið er vettvangur til að láta slíka umræðu fara fram.

Það hefur auðvitað komið fram að þær aðstæður sem við höfum upplifað núna á síðustu dögum eru um margt mjög sérstakar. Það skapast mjög óvenjuleg staða og að ég hygg nokkuð fordæmalaus þegar forsætisráðherra ákveður að biðjast lausnar fyrir sína hönd og ráðuneytis síns með þeim hætti sem gerðist í fyrri hluta vikunnar. Það eru fordæmalausar aðstæður. Hins vegar, á grundvelli þingræðisreglunnar, hefur verið mynduð ný ríkisstjórn. Það ástand sem uppi var, við getum sagt í byrjun þessarar viku, hefur verið leyst. Gagnrýnisatriði hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar á hendur ríkisstjórninni eru að mér heyrist á umræðunni að stórum hluta þau sömu og voru uppi af þeirra hálfu fyrir mánuði, tveim mánuðum, þrem mánuðum, enda hafa þeir ekki stutt ríkisstjórnina eða stefnu hennar. Sú stjórnskipulega staða sem kom upp hefur hins vegar verið leyst og það endurspeglar viðbrögð ríkisstjórnarflokkanna við þeim tíðindum og atburðum sem áttu sér stað. Þess er líka rétt að geta í þessu samhengi að ríkisstjórnarflokkarnir hafa við myndun nýrrar ríkisstjórnar rætt um að boða til alþingiskosninga fyrr en skylda kveður á um.

Ég vona að þrátt fyrir þá tillögu sem hér liggur fyrir í dag og þau afdrif sem hún mun væntanlega fá í atkvæðagreiðslu á eftir verði hægt að koma á einhvers konar samtali milli ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna um hvernig best verði að slíku staðið. Ég hygg að ef efnt verður til kosninga fyrr en kjörtímabilið rennur út sé æskilegt að slíkar tímasetningar verði unnar og komist að niðurstöðu í einhvers konar samkomulagi. Sama á auðvitað við um þau mikilvægu verkefni sem hér hefur verið gerð grein fyrir að eru á borði ríkisstjórnarinnar og eru í miðju ferli. Ég held að það sé mikilvægt að samtal eigi sér stað milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu um það hvernig þeim málum verði þokað áfram. Og ég vona að sá tónn sem hefur heyrst í einstaka þingmönnum stjórnarandstöðunnar um að engin mál af hálfu þessarar ríkisstjórnar verði kláruð og aðrar slíkar hótanir verði ekki að veruleika þegar um er að ræða mál sem sannarlega varða þjóðarhag og sannarlega hefur verið tiltölulega góður friður um fram að þessu. Látum vera mál sem hafa verið í bullandi ágreiningi en þegar um er að ræða mál sem sæmileg sátt hefur verið um að vinna að og allir gera sér grein fyrir að eru brýn frá þjóðhagslegum hagsmunum, vona ég að stjórnarandstaðan verði ekki í þeim sporum að reyna að bregða fæti fyrir framgang þeirra bara á grundvelli hreinnar óvildar í garð ríkisstjórnarinnar.