145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni. Þessi tillaga snýst ekki um það hvort verk ríkisstjórnarinnar hafi verið góð eða vond eða hvort stefna ríkisstjórnarinnar sé góð eða vond, þótt auðvitað hafi minni hlutinn ýmsar skoðanir á því. Þessi tillaga snýst um traust, jafnvel ef maður væri sammála yfirvöldum og ríkisstjórninni um stefnu og jafnvel ef maður væri sáttur við verk ríkisstjórnarinnar. Þetta snýst í grundvallaratriðum um traust.

Hægt er að fara mörgum orðum um það hvað hefur verið gert rangt og hvað hefur verið gert rétt. Hv. þm. Páll Valur Björnsson fór áðan réttilega yfir réttindi öryrkja og aldraðra. Það er hægt að halda langan pistil um það við þetta tilefni og fleiri málefni. En þetta snýst í grundvallaratriðum um traust til ríkisstjórnarinnar, hvort hún hafi traust til að sinna þeim verkefnum sem hún sjálf telur jú svo mikilvægt að hún sjálf sinni.

Lexía síðustu vikna er nefnilega ekki eingöngu sú að forsætisráðherra þáverandi hafi sjálfur haft hagsmuna að gæta í máli sem hann var í forsvari fyrir heldur líka viðbrögð yfirvalda við þessum fréttum og við gagnrýni og sér í lagi við spurningum. Lexía síðustu vikna er sú að skýringar og svör við slíkum spurningum skuli tortryggð og þau skuli vefengd. Það er þess vegna að mínu mati að hér voru stærstu mótmæli Íslandssögunnar á mánudaginn. Og hefur nú ýmislegt gengið á síðastliðin ár og ærin tilefni verið til mótmæla, þau hafa verið mjög mörg, stór og hávær eins og við þekkjum, til að mynda í ESB-umræðunni. Eins og ég segi eru fjölmörg tilefni til að rekja störf stjórnarinnar en það er bara ekki málið, málið snýst um traust.

Núna er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki lengur forsætisráðherra en málið er orðið stærra en hann sjálfur og hans eigin hagsmunir. Hann er reyndar enn þá þingmaður sem mér finnst skrýtið en ókei, ekki mitt að segja um það. En maður verður að spyrja sig: Með hliðsjón af því hvernig menn læra af reynslunni í íslenskum stjórnmálum, verður hann þá formaður í nefnd? Það hefur nú gerst, að ráðherra sem hrökklast burt úr ráðherrastól eftir að allt er í kaldakolum verði allt í einu formaður í nefnd. Það gerist. Það kemur mér við. Það kemur okkur hinum þingmönnunum við. Það er mjög óþægilegt. Það eru þannig vinnubrögð sem við erum orðin vön á Alþingi, að menn geri alltaf það allra minnsta sem þeir mögulega geta til þess að öðlast það traust sem þeir sækjast eftir.

Mér þykir alveg tilefni, þó að ég hafi reyndar ekki mikinn tíma, til að fara aðeins yfir lexíuna af lekamáli hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur vegna þess að þar er lexía sem mér finnst við vera að læra aftur hérna sem er sú að við eigum að læra að tortryggja, við eigum að læra að vantreysta, við eigum að læra að trúa ekki ráðherrum þegar þeir útskýra mál sín aðspurðir. Það var lexían. Það var eins gott að við trúðum ekki því sem var sagt hér í pontu af þeim þáverandi hæstv. ráðherra. Það var eins gott að menn tóku ekki skýringarnar gildar. Það var forsenda þess að upp komst um málið á endanum. Mér líður eins í þessu máli. Það er eins gott að menn trúðu ekki því sem var sagt. Það er eins gott að menn tortryggðu. Það reyndist nauðsynlegt. Það er gagnrýni á viðbrögð yfirvalda við þessum tiltekna leka og viðbrögðin við gagnrýni sem kom upp í kjölfarið. Það er ömurleg lexía, virðulegi forseti, að það standi eftir.

Þess vegna er svo mikilvægt þegar svona mál koma upp að menn axli ábyrgð strax, í það minnsta sem allra fyrst, og geri það afdráttarlaust. Í staðinn var ekki einu sinni reynt eitthvert hálfkák til að byrja með, núna erum við í hálfkáksástandi, þetta er einhvers konar hálfkák. En upphaflega brugðust menn ókvæða við, kölluðu menn öllum illum nöfnum hérna og létu eins og þetta væru einhverjar svakalegar pólitískar árásir þegar þetta var bara fullkomlega lögmæt og nauðsynleg gagnrýni, fullkomlega lögmætar og eðlilegar spurningar, eins og reyndar kom fram í umræðum um siðareglur seinna meir.

Þetta gerir að verkum að núna eigum við að hafa lært þá lexíu að í þeim málefnum sem ríkisstjórnin mun taka til við núna og stærir sig af að ætla að gera svo vel, svo sem málum sem varða afnám hafta, er eins gott að við tortryggjum. Og þegar við spyrjum spurninga og fáum svör er eins gott að við trúum þeim ekki. Það er lexían sem við eigum að læra af þessu máli. Það er ömurleg lexía. Við eigum ekki að þurfa að sitja undir henni.

Trúverðugleikinn hefur beðið algert skipbrot vegna viðbragðanna við þessu máli. Ekki bara vegna málsins sjálfs heldur líka viðbragðanna við því. Til þess að öðlast traust þurfa yfirvöld að sýna fram á að þau sækist eftir því trausti. Þau hafa ekki gert það. Þau hafa dregið fætur við hvert einasta tilefni, alltaf gert það allra minnsta sem þau rétt svo komast upp með hverju sinni. Það er slæmt. Það er ekki nægileg lausn á því vandamáli að mixa saman einhverja rétt svo starfhæfa ríkisstjórn. Það þarf afdráttarlausari aðgerðir, þó ekki væri nema til þess að reyna að endurheimta eitthvað af trúverðugleika landsins gagnvart erlendum aðilum, trúverðugleika sem aftur er orðinn tvísýnn, svo meira sé ekki sagt. Kannski hjálpar þetta yfirvöldum að klára einhver verkefni þótt það verði erfiðara en ella en það eykur ekki traustið og getur ekki aukið traustið.

Kosningar í haust, segir ríkisstjórnin. Við sjáum til með það. Ég ætla að spá því að meiri hlutinn muni væntanlega varpa ábyrgð á kosningum í haust á minni hlutann. Það er orðin lenska þegar menn í ríkisstjórninni tala um kosningar að það er jafnan svikið, hvort sem það er um ESB eða stjórnarskrá eða hvað. Það verður væntanlega sennilega minni hlutanum að kenna ef ekki verða kosningar í haust. Væntanlega verður þetta sett upp einhvern veginn þannig að menn ætlist til þess að þeir fái að klára öll sín mál því það er jú svo mikilvægt að þeir klári þau. En það er erfiðara að klára mál núna. Og það er ekki minni hlutanum að kenna. Það er því að kenna að við eigum að hafa lært þá lexíu að vantreysta alltaf, að trúa ekki þegar það er svarað, sýna alltaf tortryggni, treysta aldrei. Það er lexían sem við höfum þurft að læra, bæði í lekamáli hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og í þessu máli. Það er sú ömurlega lexía sem mun tefja málin og því miður á algerlega málefnalegum forsendum.

Það er ekki lengur hægt að treysta þessari ríkisstjórn. Ég velti fyrir mér hvernig þingmenn meiri hlutans sjá fyrir sér að minni hlutinn, ætli hann að vera málefnalegur og heiðarlegur við kjósendur sína, eigi að svara þeim þegar þeir spyrja: Treystir þú þessari ríkisstjórn? Hvað með þessa klausu hérna, einhverja grein í frumvarpi sem varðar afnám hafta? Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, ætlarðu að treysta því að þetta sé í lagi? Á ég að segja: Já? Á ég að segja: Já, það er búið að skoða þetta og eitthvað svona og þetta virðist allt vera í góðu lagi? Ég get það ekki lengur. Tilefnið til þess að vantreysta er orðið yfirþyrmandi og verður héðan af. Þetta mun tefja mál ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þeim mikilvægu verkefnum sem ríkisstjórnin ætlar að standa að út kjörtímabilið, hversu langt sem það verður.

Það er ekki hægt að treysta þessari ríkisstjórn lengur. Það verður ekki hægt fyrr en það er búið að endurnýja umboðið, í fyrsta lagi. Það þýðir að það er ekki hægt annað en að vantreysta. Það þýðir að greiða atkvæði með þessari tillögu.