145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[16:19]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Undanfarnir dagar hafa verið erfiðir fyrir okkur öll. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þjóðin hefur verið vonsvikin og reið. Við skiljum það og virðum.

Nú þegar við stöndum frammi fyrir því að vantraust er borið á hina nýju ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar tel ég rétt að skoða aðeins það sem við höfum verið að takast á við.

Þjóðin varð vitni að því að hæstv. forsætisráðherra þáverandi, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, var spurður um fjárhagsleg tengsl sín við skattaskjól í Kastljóssþætti RÚV. Það þarf ekki að rekja það frekar. Í framhaldinu fór af stað atburðarás sem við þekkjum öll og leiddi til afsagnar hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra.

Nú hefur verið mynduð ný ríkisstjórn með Sigurði Inga Jóhannssyni í forsæti með stuðningi þingflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem er ætlað að starfa til komandi hausts.

Undanfarna daga hefur stjórnarandstaðan talið að öll ríkisstjórnin ætti að víkja og beint spjótum sínum í auknum mæli að formanni Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram vantraust á nýja ríkisstjórn og krefst þess að gengið sé til kosninga strax. Við þeirri kröfu stjórnarandstöðunnar hafa stjórnarflokkarnir sagt að í sjálfu sér sé ekkert mál að ganga til kosninga nú þegar.

Yrði það hins vegar gert er ljóst að mjög skammur tími væri til að undirbúa kosningar og flokkarnir, hver og einn, fengju mjög lítinn tíma til að manna framboðslista og til stefnumótunar. Það má leiða líkur að því að niðurstaðan yrði ekki jafn lýðræðisleg ef kjósa ætti eftir 45 daga og þegar liði á haustið. Miklu skiptir að ferlið sé opið og lýðræðislegt og að kjósendur hafi tíma til að kynna sér það sem flokkarnir hafa fram að færa.

Með því að boða til kosninga í haust er komið til móts við kröfuna um að flýta kosningum með eins ábyrgum og skynsamlegum hætti og unnt er. Þá eru fram undan forsetakosningar sem mikilvægt er að fái sitt svigrúm enda skiptir miklu að vel takist til með val á forseta eins og hefur sýnt sig.

Góðir Íslendingar. Það er mikilvægt að endurheimta traust þjóðarinnar. Það er líka mikilvægt að fara yfir það sem aflaga fór, læra af því og betrumbæta til framtíðar. Það verður samt að gefa því tíma. Það er aldrei farsælt að taka afdrifaríkar ákvarðanir í uppnámi eða í reiði.

Þau mikilvægu verk sem unnin hafa verið af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá vordögum ársins 2013 eru okkur ljós. Langt komin eru enn önnur mjög mikilvæg mál sem við teljum að nauðsynlegt sé fyrir land og þjóð að náist í höfn. Þar má nefna heilbrigðismál, haftalosunina og húsnæðismál. Það er verið að vinna að breytingum á lífeyrismálum landsmanna og ég tel afskaplega mikilvægt að fá niðurstöðu í það hvernig við gerum unga fólkinu okkar kleift að eignast eigið húsnæði.

Það er óásættanlegt að heil kynslóð sem er unga fólkið okkar sjái ekki fram á annað en að verða leiguliðar alla tíð. Skapa þarf skilyrði til þess að lánskjör og lánshæfi sé með þeim hætti að sá sem hefur getu til að borga háar upphæðir í leigu sé jafn fær um að greiða það sama af sínu eigin láni til húsnæðiskaupa. Þess eru mýmörg dæmi að fólk sé ekki metið fært um að greiða af láni sem er jafnvel lægri fjárhæð mánaðarlega en það hefur verið að greiða í leigu. Þetta er algjörlega óásættanlegt og það er okkar verkefni að koma því í lag.

Því fylgir mikil ábyrgð að meta aðstæður með hagsmuni heildarinnar rétt. Sú ríkisstjórn sem nú hefur verið mynduð hefur það að leiðarljósi. Þess vegna hefur verið tekin ákvörðun um að klára mikilvæg verkefni fyrir þjóðarhag og boða síðan til kosninga í haust.

Ég ætla ekki að fara ofan í allt það ljóta sem sagt hefur verið undanfarna daga að mínu mati. En ég tel það engum til framdráttar að berja í borð og hóta því að engin þingmál nái fram að ganga. Hvar er lýðræðið þá? Ríkisstjórnin hefur lýðræðislegan meiri hluta og samkvæmt því eiga mál að ná fram að ganga.

Ég trúi því ekki að stjórnarandstaðan ætli að fara í það far að þingið verði tekið í gíslingu og öll mál verði stöðvuð. Ég trúi því hins vegar að við munum öll sameinast í því að láta þau mikilvægu mál sem fram eru komin ná fram og við göngum síðan til kosninga í jafnvægi í haust.