145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[16:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hér er borin fram vantrauststillaga á farsæla ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og varla er það vegna frammistöðu ríkisstjórnarinnar. Árangur ríkisstjórnarinnar á innan við þremur árum er slíkur að enginn getur með nokkru sem kallast geta rök haldið öðru fram en að hann sé framúrskarandi á ótal sviðum. (Gripið fram í: Biddu afsökunar …) Aðrir hafa rakið hér á undan ýmis þeirra miklu framfaraskrefa sem stigin hafa verið á undanförnum árum.

Stjórnarandstaðan getur vart bent á það svið þar sem ekki hafa orðið stórstígar framfarir á síðastliðnum þremur árum. (Gripið fram í.) Sá árangur varð ekki til af sjálfu sér. Hann varð til vegna þess að menn gripu til afgerandi og einstakra aðgerða. Þingmenn ríkisstjórnar síðasta kjörtímabils hafa að vísu haldi því fram, m.a. í dag, að þau hafi alltaf ætlað sér að gera svipaða hluti. Vandamálið er bara að þau töluðu í allt aðra átt og gerðu svo sannarlega allt aðra hluti.

Í stuttri ræðu hef ég hvorki tíma til að útlista hinn mikla árangur ríkisstjórnarinnar síðastliðin þrjú ár né það sem ríkisstjórnin sem sat hér frá 2009 til 2013 hefði átt að gera öðruvísi. Hvort tveggja tæki langan tíma. Ég ætla þess vegna að draga það einfaldlega fram hver hafi verið rök stjórnarandstöðunnar fyrir tillögu sinni um vantraust á ríkisstjórnina í dag. Í ræðum stjórnarandstæðinga hafa staðreyndir ekki komið mikið við sögu, hvorki staðreyndir um verk ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum né staðreyndir um atburði líðandi stundar. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, það er vegna þess að stjórnarandstaðan veit eins og er að fyrir þau eru staðreyndir ekki góð söluvara. Pólitískar söluvörur þeirra, ekki aðeins nú heldur í mörg ár og jafnvel áratugi í sumum tilvikum, eru reiði, gremja, tortryggni, heift og jafnvel hatur. Og jú, reyndar líka töluvert af vonleysi og ótta.

Óttann þekkja þau vel sjálf. Óttinn skilgreindi stjórn landsins milli áranna 2009 og 2013. Ótti við að gera það sem þurfti, ótti við aðgangshörð erlend stjórnvöld, ótti við vogunarsjóðina, ótti við aðgerðir í skuldamálum, en umfram allt ótti við markmiðið sem Baldvin Einarsson boðaði þegar hann gaf út ritið Ármann á Alþingi. Hér ríkti nefnilega ótti við að vekja andann í þjóðinni og fá hana til að meta sig réttilega. Þetta voru nefnilega stjórnvöld sem voru meðvituð um það sjálf að þau byggðu vald sitt á reiði, tortryggni og gremju. Í augum þeirra var efnahagshrunið pólitískt tækifæri. Því meiri sem reiðin og tortryggnin væri, þeim mun sterkari stæði ríkisstjórn áranna 2009 til 2013. Í þessu eins og svo mörgu öðru var sú ríkisstjórn andstæða þeirrar ríkisstjórnar sem starfað hefur hér síðastliðin þrjú ár, ríkisstjórnar sem bauð upp á von, lofaði stórum hlutum og stóð við þá. (Gripið fram í: ESB?) Ríkisstjórn með trú á landið og þjóðina og þor til að taka stórar ákvarðanir. Ríkisstjórn festu, framtakssemi, aðgerða, lífskjarabata, aukins jöfnuðar og fyrirheits um enn betri framtíð byggða á traustum grunni. (Gripið fram í: Og heiðarleika.) Nú vill stjórnarandstaðan aftur treysta á reiði sem söluvöru.

Það verður að segjast að það hefur stundum fleytt stjórnmálahreyfingum nokkuð langt í ólíkum löndum og á ólíkum tímum að treysta á reiði. En það hefur alltaf, alltaf, endað illa þegar vald er byggt á reiði. Hér mætir stjórnarandstaðan og heimtar að ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar fari frá á fyrsta degi vegna reiði. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í dag heimtað þetta og heimtað hitt en umfram allt eru þeir að heimta völdin sín aftur, heimta völdin sem þau hafa aldrei sætt sig við að hafa misst. (Gripið fram í.) Hina raunverulegu rót reiði þeirra sjálfra. Hér stendur valið milli ríkisstjórnar sem byggir á þori, árangri og framförum (Gripið fram í: Og heiðarleika?) eða stjórnarandstöðu sem gerir út á ótta, reiði og vonleysi.

Virðulegur forseti. Frammi fyrir þessum valkostum verður Alþingi að verja ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)