145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eftir þessa umræðu stendur að það búa tvær þjóðir í þessu landi: Fámennur hópur ríkra Íslendinga, þar á meðal ráðamanna, sem geymir eigur í skattaskjólum og svo venjulega fólkið sem lifir og starfar í íslensku samfélagi og spilar eftir leikreglum þess. Það hefur orðið alger trúnaðarbrestur milli þessara tveggja þjóða og ekkert sem við höfum heyrt í umræðum í dag bendir til þess að ríkisstjórnin sé fær um að breyta því og byggja aftur upp traust almennings á stjórnvöldum. Það er alvarlegt fyrir lýðræðið í landinu. Lýðræðið er undirstaða samfélags okkar og þess vegna stendur það eftir í mínum huga eftir umræðuna að rétta leiðin er að ríkisstjórnin fari frá og almenningur fái tækifæri til að segja sína skoðun í almennum kosningum. Þannig getum við farið að byggja aftur upp traust í samfélaginu, traust á lýðræði.