145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það sem við höfum upplifað undanfarna daga og vikur er alger niðurlæging þingsins og þjóðarinnar. Það er mikill og alvarlegur álitshnekkir út á við og það sem stjórnarherrarnir hafa við okkur að segja er að það standi til, miðað við ræður einstakra ráðamanna, að fara í stórátak í nánast öllum málaflokkum ríkisstjórnar Íslands. Það á held ég að byggja þak yfir hvern einasta mann og gerbreyta heilbrigðiskerfinu og þannig er það með hvern málaflokkinn á fætur öðrum. Þetta er slík þvæla, þessi málflutningur ríkisstjórnarflokkanna. Það er óljós tímasetning með kosningar. Ríkisstjórnin talar um alls kyns verkefni en nefnir ekki stærsta verkefnið, sem er að ráðfæra sig við þjóðina og það strax, vegna þess að hér hefur orðið alveg gríðarlegur og alvarlegur trúnaðarbrestur. Enginn kemur fram með afsökunarbeiðni. Engin iðrun kemur fram frá einum einasta manni. Enginn vilji (Forseti hringir.) er til að bregðast við þeim fordæmalausu aðstæðum sem hér eru uppi. (Forseti hringir.) Vantraustið í samfélaginu er raunverulegt og vantraustið verðum við að greiða atkvæði um innan húss. (Forseti hringir.) Mikilvægi þess að rjúfa þing og boða til kosninga er raunverulegt.