145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Til grundvallar þessari umræðu um vantraust lágu nokkrar augljósar, skýrar spurningar:

Er í lagi að stjórnmálamaður geymi fé sitt í aflandsfélagi? Er það gott fordæmi? Væri það í lagi að fleiri gerðu það? Væri í lagi að allir Íslendingar gerðu það? Við höfum heyrt fjármálaráðherra, eins og ég túlka það, eiginlega segja það já, ég gat ekki betur heyrt en að það væri sem sagt í lagi.

Er í lagi að stjórnmálamenn sem tala fyrir því að Íslendingar fjárfesti í krónum og geymi fé sitt í krónum séu sjálfir með sitt fé í erlendum gjaldmiðli og segi ekki frá því? Er það heiðarlegt? Getum við skrifað undir það? Er í lagi þegar við erum að semja við kröfuhafa um uppgjör á þremur bönkum að einn stjórnmálamaður sé kröfuhafi sjálfur og fjölskylda hans og segi ekki frá því? Er það í lagi? (Gripið fram í: Nei.)

Þetta eru þær spurningar sem hafa blasað við. (Forseti hringir.) Enginn stjórnarliða hefur svarað þeim spurningum afgerandi. Þeir hafa hins vegar gefið í skyn að þetta sé í lagi. (Forseti hringir.) Þetta er ein röksemdin í viðbót fyrir því að við eigum að samþykkja vantraust og augljóslega fara í kosningar. Ég segi: Þetta er ekki í lagi. Nú þurfum við að spyrja þjóðina: Er þetta í lagi? (Gripið fram í: Heyr, heyr!)