145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er engin heimtufrekja að leggja fram vantrauststillögu. Það er sjálfsagður réttur hvers þingmanns að gera það.

Í upphafi vikunnar lagði stjórnarandstaðan fram vantrauststillögu á sitjandi forsætisráðherra. Hann vék til hliðar og varð í rauninni við því sem gerð var tillaga um fyrr í vikunni.

Virðulegi forseti. Vegna umræðna í þessari viku um skattaskjól vil ég segja að skattaskjól eru ekki í lagi og þau þarf að uppræta. Það þarf að breyta lögum á Alþingi ef við þurfum að gera það. Við eigum að gera það á þverpólitískan hátt. Við eigum að koma að því, allir flokkar, að fara yfir þau mál og skoða hvernig þarf að breyta.

Hins vegar vék forsætisráðherra til hliðar til að hægt væri að halda áfram að vinna að þeim góðu verkefnum sem þessi ríkisstjórn vinnur að og hægt væri að klára þau. Kjarasamningsmál eins og húsnæðismál, tryggingagjald, afnám gjaldeyrishafta og fleira. Við greiðum atkvæði um það í dag, virðulegur forseti, hvort við viljum halda áfram með þau mál.

Þess vegna segi ég alveg (Forseti hringir.) skilyrðislaust nei við því að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, (Forseti hringir.) sem er á sínum fyrsta degi og ætlar að vinna að þeim málum, fari frá völdum. Það er algjörlega skýrt nei við því.