145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:29]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hvað er traust, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson? Það er alla vega ekki teygjanlegt hugtak. Það er alveg klárt hvað traust er. Ég vantreysti þessari ríkisstjórn, ekki bara vegna þess sem á undan er gengið heldur líka vegna þess hvernig ráðherrabekkurinn er skipaður, utan eins, þeim nýja ráðherra sem nú er kominn. Allir hinir ráðherrar, alla vega þeir sem ég hef heyrt í, hafa lýst því yfir að tæknilega sé ekkert ólöglegt við skattaskjól. Ég treysti ekki þessu fólki til að halda áfram í stórum verkefnum á borð við afnám hafta þar sem það þarf að vera alveg á hreinu hvar fólk stendur varðandi þessa hluti, almannahagsmuni á móti sérhagsmunum. Þess vegna þurfum við að segja já við vantrausti hér í dag. Það er eitthvað (Forseti hringir.) sem þjóðin biður um.