145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þjóðin og stór hluti þingmanna, þar með talið nokkrir stjórnarþingmenn, kalla á uppgjör við ríkisstjórn og kosningar sem fyrst. Því er ég sammála. Við þurfum nýtt upphaf. Við þurfum að endurreisa Ísland. Það má kannski lýsa síðustu viðburðum í dauðateygjum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eins og ungur maður nefndi við mig hér úti á Austurvelli: Það er ekki nóg að skipta um nafn og kennitölu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin er í raun og veru nýjasti kennitöluflakkari landsins. Ég treysti ekki núverandi stjórnarflokkum til að stjórna landinu. Eins og ég sagði áðan: Við þurfum nýtt upphaf, við þurfum endurræsingu. Alþingismenn allir ættu að óska eftir nýju umboði þjóðarinnar með kosningum. Þess vegna segi ég já við vantrauststillögu á ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.