145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[18:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Af efnislegum ástæðum sem ég rakti í ræðum mínum í dag þá styð ég það að við förum í kosningar. En það er líka ein önnur ástæða. Hún byggir á því að ég á erfitt með að treysta mjög loðnum yfirlýsingum fulltrúa stjórnarflokkanna um kosningar í haust. Mér finnst það lýsandi fyrir ástandið og vantraustið sem ríkir að maður veit ekki hverju maður á að trúa í þessu. Engin dagsetning hefur verið nefnd. Það er bara sagt í haust. Stundum er þessi yfirlýsing skilyrt. „Við ætlum að kjósa í haust ef þið hin öll hagið ykkur vel.“ Ótrúlega hrokafull efnisleg yfirlýsing í raun og veru miðað við það sem á undan hefur gengið. Þannig að þetta er ekki á tæru. Það er viðbótarástæða fyrir utan það hversu siðferðilega sterkt það væri að blása til kosninga strax. Það væri einfaldlega best að ákveða þetta hér og nú vegna þess að yfirlýsingum stjórnarherranna, líka þegar kemur að yfirlýsingum um aðrar tegundir af kosningum eins og t.d. um ESB, er erfitt að treysta. Ég segi já.