145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[18:13]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Það var spurt um það áðan í ræðustól hvað traust væri. Ég get alveg sagt hvað mér þykir traust vera. Það er lykilþáttur mannlegra samskipta. Þegar traust hverfur fer að molna úr samfélaginu. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst hér. Tveir æðstu menn ríkisstjórnarinnar eru uppvísir að trúnaðarbresti gagnvart þjóðinni. Þeir eru að svindla á þjóðinni. Það er sorglegt að horfa á stjórnarþingmenn samþykkja ekki þingrof. Með því eru þeir að samþykkja það að foringjar þeirra eru að svíkja þjóðina. Það er ekki í fyrsta skipti á kjörtímabilinu. Það er ekkert mál fyrir þá að svíkja fólk. Þetta er grátlegur dagur í íslenskum stjórnmálum. Þetta er grátlegt að horfa upp á þetta. Og það er sorglegt að þurfa að taka þátt í þessu og sérstaklega að horfa upp á stjórnarþingmenn sem maður hefur unnið með í þrjú ár, frábært fólk sem hefur unnið gott starf, þurfa að leggjast svo lágt að styðja ríkisstjórn og forustumenn hennar sem hafa svikið þjóðina, hreint út sagt. Það er bara þannig. Ég segi já við þessu.