145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það eru 22 þingfundadagar eftir af starfsáætlun Alþingis og auðvitað með öllu óviðunandi fyrir Alþingi Íslendinga að vera sett í þá stöðu að stjórnarflokkarnir með sinn 38 manna meiri hluta hafi tilkynnt okkur að það verði kosið fyrr, kosið verði í haust, en síðan liggi ekkert meira fyrir um tímasetningu þeirra kosninga né heldur þau mál sem stjórnarflokkarnir telja svo mikilvæg að ekki megi kjósa núna í vor, eins og við í stjórnarandstöðunni lögðum til fyrir helgi og var fellt. Ég hefði talið það eðlilegast. Ég hefði talið eðlilegast að við hefðum samþykkt þá tillögu og boðað hefði verið til kosninga í vor. Þá kom fram sá skýri vilji ríkisstjórnarinnar að flýta kosningum en ekki svo mikið, þær yrðu í haust, en ríkisstjórnin hefur ekki notað tímann til að setja niður þau mál sem hér hefur verið tönnlast á að séu svo mikilvæg að það þurfi að ljúka þeim. Við erum engu nær (Forseti hringir.) um þau. Við erum engu nær um tímasetningu. Það er óviðunandi staða fyrir Alþingi, herra forseti.