145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:37]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með þeim sem gera athugasemdir við það að við skulum koma saman til þings núna eftir þá dramatísku atburði sem áttu sér stað í síðustu viku án þess að fyrir liggi dagsetning um kosningar og málaskrá hinnar nýju ríkisstjórnar sem fékk andlitslyftingu í lok síðustu viku. Það loforð var gefið almenningi og það þýðir ekki að hafa í hótunum við stjórnarandstöðuna eins og hv. þm. Jón Gunnarsson gerði síðast þegar við þinguðum vegna dagsetningar um kosningar. Það á ekki að hóta stjórnarandstöðunni neinu í því samhengi. Loforðið var gefið íslenskum almenningi. Almenningur á rétt á að fá að vita hvenær hann fær að ganga til kosninga. En þingið á rétt á því líka vegna þess að ef við eigum að taka hér til starfa og sinna þingstörfum með eðlilegum hætti þá er auðvitað lágmark að fyrir liggi hver dagskráin er. Það er sanngirniskrafa, (Forseti hringir.) eðlileg krafa að dagsetning verði í það minnsta gefin upp ætli menn sér ekki að ganga til kosninga strax, sem ekkert bendir til að þeir hafi hugsað sér.