145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Kvöldið fræga í síðustu viku sagði hæstv. fjármálaráðherra í stiganum að það yrði klippt eitt þing af kjörtímabilinu. Það þýðir að þá ber að kjósa væntanlega fyrir miðjan september næstkomandi vegna þess að síðasta þing á kjörtímabilinu er næsta vetur. Þannig skildi ég hæstv. fjármálaráðherra. Frá þeim tíma hefur verið dregið í land aftur og aftur. Menn eru eitthvað að pukrast með þessar tímasetningar og ofan í það koma hótanir frá einstaka stjórnarþingmönnum í garð stjórnarandstöðunnar. Það gengur ekki, ef leiðangurinn snýst um það að ætla að fara að byggja upp trúnaðartraust, að byrja á því að segja eitthvað og svíkja það svo og byrja á því að segja eitthvað og fara svo að hóta og setja skilyrði. Komið bara með þessa tímasetningu og höldum svo áfram að vinna. Hvers vegna þetta pukur? Hvers vegna geta menn ekki einfaldlega sagt hvenær á að kjósa? Þá getum við haldið áfram.