145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ágætt í sjálfu sér að nýr forsætisráðherra boði stjórnarandstöðuna til viðræðna en það er öllu verra að ekki neitt kom út úr þeim fundi, nákvæmlega ekki neitt, ekki dagsetning á kosningar, ekki einu sinni fyrstu drög að forgangsröðun mála. Með öðrum orðum, herra forseti, ríkisstjórnin sem taldi svo óskaplega mikilvægt út frá einhverjum gríðarlegum verkefnum að hún sæti áfram í nokkra mánuði í óþökk þjóðarinnar veit ekkert hvað hún vill. Henni hefur ekki dugað helgin og gærdagurinn til að átta sig á því þannig að ekkert kom út úr fundinum. Ég held að hæstv. forseta vorum hljóti að vera órótt í sinni, eða mér væri það í hans sporum. Starfsáætlun Alþingis er í fullkomnu uppnámi og það er tilgangslaust eða tilgangslítið að hefja vinnu í nefndum vegna þess að nefndirnar vita ekkert í hvaða mál þær eiga að fara. Ég get tekið velferðarnefnd sem dæmi sem er með gríðarlegan stabba af stórum málum, augljóst mál að ekki er raunhæft að afgreiða nema eitt eða tvö þeirra Hver þeirra eiga það að vera? Við þurfum að fá einhverjar línur í þetta.

Herra forseti. Skynsamlegast er (Forseti hringir.) núna og yrði mjög vinsælt að gefa þinginu sólarfrí í tvo, þrjá daga þannig að ríkisstjórnin geti unnið heimavinnuna sína.