145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég ætla að leyfa mér að leita ásjár forseta með það að kalla fram upplýsingar um kjördag. Eins og málum er háttað akkúrat núna höfum við ekkert í höndunum nema þingmálaskrá ríkisstjórnar sem er farin frá, þingmálaskrá ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem er farin frá. Það er komin önnur ríkisstjórn og hver er þingmálaskrá þeirrar ríkisstjórnar? Hver er þingmálaskrá ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar? Nefndirnar eru með verkefni og nefndirnar eru að vinna og í hvaða forgangsröð á að vinna? Á hvaða mál á að leggja áherslu? Hvernig eigum við að vinna á Alþingi Íslendinga þegar ekki er vitað hver forgangurinn er? Við vitum að ríkisstjórnin er umboðslaus. Við vitum að það er flotið algjörlega undan henni. Það er einhver sýndarríkisstjórn að störfum núna. Við þurfum að vita hvaða mál þetta eru. Við þurfum að vita hvenær kjördagur á að vera. Og forseti þarf að vera með okkur, Alþingi, í liði með það að setja þessu vandræðaframkvæmdarvaldi skorður og kalla kjördaginn fram.