145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með félögum mínum sem hafa talað. Það er auðvitað ekki hægt að hafa það þannig að hér ríki fullkomin óvissa, ekki aðeins í þingsal heldur líka í samfélaginu. Það er ekki komin nein staðföst dagsetning. Við höfum loforð hæstv. forsætisráðherra en það var enginn fulltrúi frá Sjálfstæðisflokknum á þessum fundi. Fyrir vikið, þekkjandi hefðbundnar leikfléttur hjá flokkum í valdastólum, er hætt við því að það sem var talað um á fundinum dragist. Það er mjög hætt við því að við fáum ekki neinar upplýsingar um það hvenær eigi að rjúfa þing. Því miður virðist ekki vera nein almennileg yfirsýn eða verkstjórn hjá þessari ríkisstjórn því að ríkisstjórnin veit ekki hvaða mál hún vill leggja áherslu á. Það er ekki í boði, forseti.