145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að undrast það að herra forseti láti sér detta í hug að setja á fund við þessar aðstæður. Við skulum rifja upp af hverju ástandið er svona. Það er út af því að Ísland nýtur þeirrar vafasömu sérstöðu að þrír ráðherrar úr ríkisstjórninni sem hrökklaðist frá áttu eignir í skattaskjólum á einhverju tímabili. Tveir sitja enn í ríkisstjórn, annar sjálfur fjármálaráðherrann sem fór með eignir í skattaskjól.

Krafa almennings er skýr. Hér er búið að mótmæla dögum saman, hæstv. forseti, og krefjast kosninga strax. Nýr forsætisráðherra, hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson — jú, hann hélt þó fund með stjórnarandstöðunni en hann gat engin svör gefið. Ég tel ekki fundarfært hér, herra forseti, á meðan dagsetning fyrir kosningar liggur ekki fyrir.