145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eftir þær yfirlýsingar sem gefnar voru af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér í stiganum um það að kjósa skyldi í haust á þjóðin heimtingu á því að það verði gefin upp dagsetning á því hvenær eigi að ganga til kosninga. Krafa fólksins sem hefur verið hér á Austurvelli hefur verið sú að það eigi að kjósa strax. Það var líka krafa stjórnarandstöðunnar sem var felld af meiri hluta þingsins, þannig að núna er komið að því að þessi ríkisstjórn verður bara að standa við sín orð og koma með dagsetningu. Það finnst mér vera aðalmálið. Þjóðin á heimtingu á því. Svo er það líka praktískt atriði upp á vinnulag okkar hér í framhaldinu hvernig við eigum að geta hagað þessum málum. Við getum ekki komið neinu skikki á það fyrr en dagsetningin á kosningunum liggur fyrir. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. forseta að hann leggi þinginu lið í því að fá þessi mál á hreint.