145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Hér í síðustu viku var rík krafa um að forsætisráðherra stigi til hliðar og það gerði hann í síðustu viku. En það var jafnframt fullur vilji til þess að núverandi ríkisstjórnarflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem hafa 38 manna meiri hluta á þinginu, héldu áfram og kláruðu þau stóru verkefni sem unnið er að. Eitt þessara verkefna er á dagskrá hér í dag.

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, átti fund með stjórnarandstöðunni nú í hádeginu til þess meðal annars að fara yfir þessi mál og ítreka mikilvægi þess að þau mál sem ríkisstjórnin ætlaði að koma með hygðist hún klára. Það væri svo og við værum með 38 manna meiri hluta hér á þinginu. (Gripið fram í.)

En hins vegar, virðulegur forseti — það er svo mikið stress hér í stjórnarandstöðunni að maður fær ekki frið til þess að tala. (Gripið fram í.) Hins vegar er alveg ljóst að það er líka mögulegt að kjósa fyrr og klára þessi mál. Það er það sem er lagt upp með.

Það sem kemur mest á óvart hér er þessi pirringur stjórnarandstöðunnar. [Hlátur í þingsal.] Þegar hæstv. forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur talað við stjórnarandstöðuna og er að reyna að leita leiða til þess að samræma sjónarmið þá veður (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan uppi með miklum pirringi og miklum látum.

Virðulegur forseti. Okkur er ekkert að vanbúnaði að ganga til dagskrár sem liggur fyrir þessum fundi. (Gripið fram í.)