145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eftir hneykslismál síðustu viku, eftir fumið og fátið og loforð um að flýta kosningum, er það eðlileg krafa af hálfu hv. þingmanna og almennings í landinu að kjördagur verði settur niður. Ég hefði haldið að hæstv. forsætisráðherra, sem stígur öðruvísi fram en sá sem er nýfarinn frá og kallar til sín stjórnarandstöðuna til að ræða málin, sæi það líka að það skiptir máli fyrir vinnufrið í þinginu og fyrir farsæla lausn á þeim mikilvægu málum, sem við vitum reyndar ekki hver eru, að kjördagur yrði ákveðinn og síðan mundum við raða vinnunni inn í tímarammann sem fyrir liggur. Eftir orð hv. þingmanns, formanns þingflokks Framsóknar, kemur efasemd upp í hugann: (Forseti hringir.) Bíddu, getur verið að menn séu enn að spekúlera í því að kjósa ekki í haust heldur aðeins að sjá svona til hvernig verkast vill með 38 manna meiri hluta í þinginu?