145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að menn ætla strax að reyna að draga úr með kosningar í haust eins og svo sem mátti búast við. Hv. þingmaður kemur hér og segir að nú sé unnið að því að samræma þau sjónarmið að klára málin og halda kosningar í haust. Það svona gefur tóninn. Trúverðugleiki þessa meiri hluta fyrir því að halda kosningar og atkvæðagreiðslur er ekki mjög mikill. Ekki var farið í þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB. Ekki var farið í þjóðaratkvæðagreiðslur um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningum eins og stóð til og var eina réttlætingin fyrir bölvanlegum 40% þröskuldi í tímabundnu ákvæði í stjórnarskrá um breytingar þar á. Stærstu mótmæli Íslandssögunnar voru hér fyrir utan og krafist var kosninga strax. Það voru mjög skýr skilaboð. Hæstv. þáverandi forsætisráðherra sóttist sjálfur eftir þingrofi og kosningum. Hæstv. fjármálaráðherra var til í það. Hv. stjórnarandstaða krafðist þess. Menn geta ekki einu sinni gefið tímasetningu fyrir því hvenær þeir ætla að halda kosningar undir þessum trúverðugleika.

Virðulegi forseti. Það er erfitt að finna orð til að lýsa því rugli sem (Forseti hringir.) hér á sér stað.