145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þessi nýja ríkisstjórn er strax frá fyrsta degi rúin trausti. Það er ekki hægt að trúa neinu sem kemur frá hæstv. ráðherrum eða stjórnarliðum. Þetta er allt á floti. Maður hefði haldið að það yrði fyrsta verk ríkisstjórnarinnar, eftir þessa helgi, í upphafi þessarar þingviku, að leggja spilin á borðið um það hvernig hún ætlar að vinna að framkvæmd þeirra mikilvægu verkefna sem hún telur að hún sé með á sinni könnu, að það liggi þá fyrir skilgreining á þeim mikilvægu málum. En svo er ekki. Það er bara boðað til kaffisamsætis og ljósmyndatöku eins og fermingarbörn séu á ferðinni.

Það er ekki verið að kalla eftir þessu. Það er verið að kalla eftir að menn standi einu sinni við orð sín og komi með eitthvað borðleggjandi; hvort sem okkur líkar það betur eða verr að kosið verði í haust frekar en nú í vor eins og við viljum þá standi ríkisstjórnin að minnsta kosti við sín eigin (Forseti hringir.) orð og komi með eitthvert plan. Nei, nei, menn mega bara vera sælir og glaðir með að þessi frábæra ríkisstjórn er komin til valda eða hitt þó heldur.