145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég skil óþolinmæði hv. stjórnarandstöðu. Ég var í sömu sporum á síðasta kjörtímabili þegar jafnréttisráðherra landsins, Jóhanna Sigurðardóttir, var dæmd fyrir (Gripið fram í.) — eða fór gegn jafnréttislögum, þegar ógilding ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur árið 2011 í Hæstarétti var staðfest — Héraðsdómur Suðurlands, var staðfest. Hvorugur þessara ráðherra baðst þá afsökunar á einu eða neinu, brutu þó lög.

Menn geta verið ósammála um þá stöðu sem er uppi og ekki ætla ég að standa hér og mæla fyrir aflandsfélögum, (Gripið fram í.) víðs fjarri, (Gripið fram í.) virðulegur forseti. Síðasta ríkisstjórn skipaði líka stjórnlagaráð þrátt fyrir ógildingu kosninga í Hæstarétti. Svo kemur þetta sama fólk og talar hér (Forseti hringir.) eins og helgislepjan sé engin í heiminum — og valdhroki þingflokksformanns Pírata, sem sendir sínu eigin fólki þannig tóninn að það sé best fallið til þess að þrífa, stendur svo hér eins og heilög kýr og segir öðrum fyrir verkum. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Þetta er fáránlegt. (Gripið fram í.) Nei, það vil ég ekki … (Forseti hringir.) [Háreysti í þingsal.]