145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:56]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Við erum stödd á fordæmalausum stað í íslenskri pólitík. Gerningaveður síðustu vikna og daga er með eindæmum. Við í stjórnarandstöðunni lögðum fram tillögu í síðustu viku um kosningar strax í takt við mjög sterkar raddir almennings. Sú tillaga var felld í þinginu á föstudaginn af meiri hluta stjórnarflokkanna. Það er mjög mikilvægt að við fáum sem allra fyrst að sjá dagsetningu á kosningum í haust. Við megum ekki gleyma því, stjórnmálamennirnir á Alþingi, að kosningar eru ekki fyrir okkur. Kosningar eru ekki haldnar fyrir stjórnmálaflokka. Þær eru leið almennings til að setja sitt mark á íslensk stjórnmál. Við skuldum almenningi þessa dagsetningu, ekki stjórnarandstöðunni.