145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú á að halda áfram að finna afsakanir til að svíkja loforðið, ekki við stjórnarandstöðuna heldur þjóðina, loforðið um að gengið yrði fyrr til kosninga, að þetta þing yrði klárað og síðan boðað til kosninga.

Maður heyrir hjá stjórnarliðum að það á ekki að standa við stóru orðin heldur á að reyna að benda á hina og þessa sem bera ábyrgð á ástandinu. Gleymum því ekki að það var ríkisstjórnin sjálf, þó að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi ekki verið á landinu og orðið vitni að þeim samtölum sem áttu sér stað í þingsal og setur sig hér á háan hest, sem lofaði þjóðinni eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar að þing yrði rofið.

Síðan hafa þingmenn stjórnarinnar og ráðherrar komið hver á fætur öðrum og hótað því að ekki verði staðið við þetta heldur velti það algjörlega á stjórnarandstöðunni að fylla út eða taka þátt í að leysa út óútfylltan tékka ríkisstjórnarinnar.

Þetta er óboðlegt ástand. Að ætla okkur að fara í hefðbundin þingstörf og láta eins og ekkert hafi gerst á landinu er ekki í boði. Það er bara ekki í boði. (Forseti hringir.)

Látið okkur fá dagsetningu. Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu. (Forseti hringir.) Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti.