145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í fyllstu einlægni, er til of mikils mælst að biðja um dagsetningu á kosningum? Er það dónaskapur og heimtufrekja að fá að vita hvenær kosningarnar verða haldnar?

Gerum okkur grein fyrir því um hvað við erum að tala. Við erum að tala um að verða við kröfu fólks sem kom hérna tugþúsundum saman út á Austurvöll og krafðist kosninga strax. Strax, ekki breytinga á stólaskipan í ríkisstjórninni, heldur kosninga strax.

Hér er mjög einföld krafa uppi af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hvenær eiga þessar kosningar að verða haldnar?

Hæstv. forsætisráðherra fráfarandi, sem fór frá í síðustu viku, sat beggja vegna borðs í samningum við kröfuhafa. Hann var kröfuhafi og leiddi samninga við kröfuhafa. Hann hafði forskot á aðra kröfuhafa af því að hann vissi nákvæmlega hvers virði kröfurnar voru. Það er aðstöðumunur. Að sama skapi er aðstöðumunur milli (Forseti hringir.) stjórnmálaflokka sem vita hvenær kosningarnar verða — ég trúi ekki að núverandi stjórnarflokkar séu ekki búnir að velta upp (Forseti hringir.) möguleikum í þeim efnum — og þeirra sem vita ekki hvenær þær verða. (Forseti hringir.) Ég vil líka fá að vita hvaða mikilvægu mál það eru sem stjórnin ætlar að klára. Við eigum heimtingu á að fá að vita það.