145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:08]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér koma fram mjög eðlilegar spurningar sem eru viðbrögð stjórnarandstöðunnar við því sem stjórnarliðar hafa sagt. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að kjósa eigi í vor og að það liggi fyrir að þau vilji afgreiða einhver mál fyrir þann tíma. Þá er ósköp eðlilegt að fá að spyrja hvaða mál það séu í fyrsta lagi og hvaða dag eigi að kjósa. Mér finnst mjög skrýtið að við séum að eyða tíma í það og fáum ekki bara hrein svör um það strax. Af hverju er stjórnin að víkja sér undan þessum spurningum? Er ekki eðlilegast að svara þessu bara? Ég spyr í fullri einlægni. Hvaða mál eiga að fara í gegn? Ég hlakka til að fara að ræða breytingar á lögum um sjúkratryggingar. (Forseti hringir.) Það er gott mál og við þurfum að ræða okkur í gegnum það. Það munum við gera þegar við erum búin að fá svar við þessum ofureinföldu spurningum.