145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:09]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með flokkssystur minni, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur: Friðurinn hér í þessum sal þessa stund er í höndum eins manns. Hæstv. forsætisráðherra þarf bara að gefa einfalt svar við fullkomlega réttmætri spurningu um það hvenær hann hyggist ganga til kosninga.

Mönnum verður tíðrætt um öll stóru verkefnin sem þessi ríkisstjórn þurfi að vinna, en það vefst fyrir þeim að segja okkur hver þau eru. Það liggur engin málaskrá fyrir þinginu. Er það ekki dæmigert að halda uppi einhverju loðmullutali, tala um að samræma sjónarmið vegna kosninga í haust þegar almenningur er bara að spyrja: Hvað eigið þið við með loforðinu sem þið gáfuð hér í síðustu viku um að það yrði kosið í haust?

Mönnum verður líka tíðrætt um 38 þingmanna meiri hluta í þessum sal. Valdið er þeim mjög hugleikið og það er auðséð að það ætlar að verða þeim erfitt að sleppa því valdi því nú eru þeir greinilega að gæla við þá hugmynd að standa ekki við loforðið um kosningar í haust. Meðan þeir ekki gefa dagsetningu er ekki hægt að taka það loforð alvarlega eða líta svo á að það liggi nein merking á bak við það.