145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:13]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Upp kom dæmalaust, fordæmalaust ástand í síðustu viku. Til að bregðast við því voru vissulega gerðar mannabreytingar í ríkisstjórn og nýr forsætisráðherra tók sæti, en þegar tilkynnt var um þær mannabreytingar horfðu forustumenn stjórnarflokkanna framan í fjölmiðla, horfðu og töluðu til þjóðarinnar með þeim hætti að viðbrögðin væru tvenns konar. Annars vegar að skipta um forsætisráðherra, að sá fyrri viki til hliðar, og svo hins vegar að kosið yrði í haust. Það sem meira er, hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að kjörtímabilið yrði stytt sem nemur einu löggjafarþingi. Hann hefur verið hér það lengi að hann veit hvað eitt löggjafarþing er. Síðasta löggjafarþing þessa kjörtímabils hefst í byrjun september. Núna er annaðhvort verið að gera hann að ómerkingi eða þá að sagt var ósatt. (Forseti hringir.) Hvort var það, virðulegi forseti?