145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega alltaf meira og meira hissa. Það er mikið talað um, og hæstv. forsætisráðherra var í viðtali hérna um helgina, mikilvægi þess að byggja upp traust. Það er augljóst og hefur verið augljóst undanfarin ár. Björt framtíð er meðal annars stofnuð um það verkefni og þá trú okkar að byggja þurfi upp traust í íslensku samfélagi. Hvernig sjá menn fyrir sér að gera það? Menn stóðu hér í stiganum í síðustu viku og sögðu alveg skýrt, af augljósum ástæðum, að það ætti að kjósa í haust, að það ætti stytta kjörtímabilið um eitt þing. Ástæðurnar voru augljósar. Nú eru að vakna grunsemdir um að menn ætli einhvern veginn að tala sig út úr því, þetta hafi ekki verið meint svona og sé ekki alveg ljóst. Væri ekki langbesti leikurinn í þessari stöðu, ef menn meina það að þeir vilji byggja upp traust, að koma fram og segja: Kjördagurinn er þarna og þetta eru (Forseti hringir.) málin sem við viljum klára. (Forseti hringir.) Er það ekki langbest? (Forseti hringir.) Skapar ekki allt annað glundroða og óvissu? Horfum við ekki (Forseti hringir.) upp á það ástand í þinginu núna?