145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég ætla að nota þennan dagskrárlið til að óska eftir því að menntamálaráðherra verði fenginn til að ræða nýundirritaðan þjónustusamning við Ríkisútvarpið. Um það var gefið sérstakt loforð í umræðu um fjárlagafrumvarpið og ég vænti þess að þessi beiðni dugi til að hæstv. mennta- og menningamálaráðherra fari yfir þau mál sérstaklega með þinginu eins og lofað var. Það er mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að víða er verið að herða pólitísk tök, ekki síst á opinberri umræðu og fjölmiðlum.

Síðan vil ég segja að mér finnst ástæða til að fara yfir það með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvað það þýðir að vera dæmdur fyrir eitthvað. Ágreiningur ráðherra við sveitarfélag vegna skipulagsmála er alvanalegur. Það kemur stundum á borð umhverfisráðherra, stundum á borð innanríkisráðherra eins og er núna í nýgengnu máli Ólafar Nordal við Reykjavíkurborg, það kemur upp ágreiningur (Forseti hringir.) um skipulagsmál. Niðurstaðan liggur fyrir og þegar niðurstaðan (Forseti hringir.) lá fyrir í því máli sem vísað er til undirritaði sú sem hér stendur það skipulag sem (Forseti hringir.) ágreiningurinn var um og lögin voru skýrð í framhaldi af því. Ég frábið mér það, forseti, að það sé (Forseti hringir.) látið óátalið að hv. þingmaður tali ítrekað, bæði á Alþingi og í fjölmiðlum, (Forseti hringir.) um að sú sem hér stendur sé dæmd manneskja — því að það er rangt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)