145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:17]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þá kröfu sem hér hefur komið fram um að dagsetning kosninga komi fram sem fyrst. Það skiptir miklu máli, ekki bara fyrir þá sem eru í stjórnmálunum, kannski síst fyrir okkur, við eigum að geta hoppað í kosningar með stuttum fyrirvara, heldur skiptir líka máli fyrir þjóðina að vita hvenær er kosið. Það þarf að undirbúa, það þarf að taka ákvarðanir, það eru kjörnefndir, það eru skólar, það er ýmislegt, það geta verið aðrir atburðir í kringum kosningar sem þarf að taka tillit til. Það er eitthvað svo skrýtið að ætla að sitja á þessu. Mig langar líka að minna á að ríkisstjórnin er ekkert að gera okkur einhvern greiða með því að boða til nýrra kosninga og nefna dagsetningu. Þetta er krafan hérna úti. Forsætisráðherra hefur sagt af sér. Það er ekki eins og ekkert sé búið að ganga á. Stundum velti ég fyrir mér: Lesa stjórnarliðar og ríkisstjórnin ekki blöðin? Og sjá hvað er búið að ganga á? Við erum höfð að athlægi erlendis fyrir það hvernig við höfum hagað okkur. (Forseti hringir.) Og að bera þetta saman við einhver mál frá fyrra kjörtímabili, (Forseti hringir.) einhverjar ráðningar sem voru dæmdar ólöglegar, fyrirgefðu, ég veit ekki hvað hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins er að fara.