145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt að það hefði komið skýrt fram í máli mínu að ég teldi vel hægt að samræma þau sjónarmið sem komu fram hér í síðustu viku við, alveg rétt, fordæmalausar aðstæður þegar forsætisráðherra segir af sér en ríkisstjórnin ákveður að sitja áfram.

Þar var talað um að hægt væri að flýta kosningum og að menn væru tilbúnir til þess. Um það á að vera hægt að mynda samstöðu. Það var líka talað um að það ætti að klára ákveðin mál áður en að kosningum kæmi. Ég held að mögulegt sé að samræma bæði þessi sjónarmið, að flýta kosningum og klára þau mál sem ríkisstjórnin ætlar sér að koma fram með og klára.

Hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson kallaði stjórnarandstöðuna til sín og átti góðan fund með henni fyrr í dag. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að menn skuli núna ekki vilja byrja að ræða þau mál sem er alveg ljóst að verða meðal annars á þessum lista, eins og til að mynda kostnaðarþátttöku sjúklinga.

Er ekki kominn tími til að við vindum okkur í þau mikilvægu mál sem liggja fyrir þessum fundi? Hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hefur sagt að þessi listi komi fram og að menn geti þá rætt eðlilega hvernig þurfi að breyta starfsáætlun þingsins o.s.frv. (Forseti hringir.) Í guðanna bænum, förum að koma okkur í að ræða mikilvæg mál sem liggja fyrir þessum fundi.