145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Vegna orða Svandísar Svavarsdóttur áðan þá taldi ég mig hafa sagt …(ÓÞ: Hv. þingmanns.) Hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þakka þér fyrir ábendinguna, hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Ég taldi mig hafa sagt að ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra hefði verið dæmd ógild, ekki að ráðherrann hefði verið dæmdur í Hæstarétti. Ef mér hefur orðið fótaskortur á tungunni bið ég hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur afsökunar á því. Ég taldi mig segja að ákvörðun hennar hefði verið ógild í Hæstarétti.

Ég vildi einfaldlega koma þessu á framfæri. Ég ítreka aftur að í ræðu minni áðan var ég að benda á þann tvískinnung sem mér fannst vera í málflutningi stjórnarandstöðunnar. Ég er mér líka meðvituð um það, virðulegur forseti, að tveir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa tapað máli í Hæstarétti. Það gildir nákvæmlega sama … (Gripið fram í.) í héraði, fyrirgefið, (Forseti hringir.) og það gildir nákvæmlega sama um þá og um hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. (Forseti hringir.) Ákvörðun hennar var dæmd ómerk og ég ítreka afsökunarbeiðni mína, (Forseti hringir.) hafi mátt taka orð mín þannig að ráðherrann hefði verið dæmdur í Hæstarétti.