145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er sama hvernig hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Ásmundur Einar Daðason reyna að snúa umræðunni, boltinn liggur hjá hæstv. ríkisstjórn um það að koma með dagsetningu á kosningum. Meðan hún er ekki gefin upp er eðlilegt að tortryggni ríki um það hvort yfirleitt eigi að standa við fyrirheitin um kosningar. Það er ekkert annað hægt en að setja spurningarmerki við það.

Enn og aftur verður hv. þingmönnum tíðrætt um mikilvæg mál, en aftur verð ég að segja að boltinn liggur hjá hæstv. ríkisstjórn, hún verður þá að koma fram með þessi mikilvægu mál. Það er algjörlega óboðlegt að það eigi að ráðast frá degi til dags hvaða mál eiga að vera á dagskrá þá 22 daga sem eftir eru af starfsáætlun þingsins. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega ríkisstjórnarinnar að koma fram með málin og með dagsetninguna og þá erum við komin með einhvern umræðugrundvöll.