145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er kallað eftir því af stjórnarandstöðunni að sá sem hér stendur lægi öldur. Ég skal reyna það. Það er ekkert óeðlilegt við það að þingmenn kalli eftir dagsetning á kosningum í haust. En það er óeðlilegt hvernig farið er fram til þess að fylgja þeirri kröfu eftir. Það getur engan veginn talist eðlilegt að þau vinnubrögð séu viðhöfð sem við verðum vitni að nú. Auðvitað tekur það einhvern tíma fyrir forustumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi að setjast niður og ná samkomulagi um þetta. (Gripið fram í: Já, já.) Þetta er ekki lítið mál sem um ræðir og mikið undir. Það er bara það sem er verið að vinna að.

Það fólk sem raðar sér í umræður um fundarstjórn og tefur þingstörf svo að ekki er hægt að taka mikilvæg mál á dagskrá sem við erum öll sammála um viðhefur ósæmileg vinnubrögð og lagar ekki ásýnd þingsins.

Og svo aðeins að hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og þeim dómi sem hún hlaut á sínum tíma. (Gripið fram í: … Það erum einmitt við sem … ásýnd þingsins … ) Já, það er alveg rétt, það er nefnilega málið (Forseti hringir.) að ákvörðun hennar var dæmd ógild. (Forseti hringir.) En viðbrögð hæstv. ráðherra á þeim tíma (Gripið fram í.) voru að hún sagði að henni væri slétt sama, hún væri í pólitík. (Forseti hringir.) Það var öll virðingin fyrir lögunum á þeim tíma. (Forseti hringir.) Það var ekki mikil auðmýkt í því. (Gripið fram í.)