145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Hér heldur leikritið áfram sem ríkisstjórnin fór af stað með fyrir nokkrum vikum síðan.

Hér er þess krafist að nefnd sé sögð dagsetning kosninga. Það er bara sjálfsögð krafa.

En það hefur í mínum augum ekkert breyst síðan fyrir helgi. Hér situr enn ríkisstjórn sem er algjörlega rúin trausti. Hvers vegna? Vegna þess að hún braut trúnað við þjóðina. Tveir æðstu menn hennar sviku þjóðina, lugu að henni.

Það er krafa samfélagsins, kannski ekki allra, en stórs hluta samfélagsins, að boða til kosninga strax. Það væri það einfaldasta sem nýr hæstv. forsætisráðherra mundi gera, að rjúfa þing og boða til kosninga. Hreinsa borðið. Hann er hér í boði kjósenda og við erum fulltrúar fyrir þjóðina, fyrir fólkið, og við eigum að hlusta á það hvað það vill.

Það langbesta sem hann gerði væri að rjúfa þing strax því að það er krafan í samfélaginu. Ef hann gerir það ekki þá er alveg lágmark að hann segi (Forseti hringir.) okkur hvenær eigi að kjósa í haust svo það verði vinnufriður því að ég er alveg tilbúinn að vinna að góðum málum sem menn hafa nefnt hér. (Forseti hringir.) En við gerum það ekki undir þessum kringumstæðum. Það er ekki hægt.