145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

útdeiling skúffufjár ráðherra.

[14:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni frétt um fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra sem greiddi tæpa milljón af skúffufé sínu síðasta dag í starfi.

Mig langar að rifja það upp í upphafi að fyrrverandi forsætisráðherra var varla sestur í ráðherrastól þegar hann var farinn að deila út styrkjum í verkefni sem tilheyrðu áhugasviði hans og fram hjá hefðbundnum leiðum, samkeppnissjóðum og öðru sem við höfum komið okkur upp til að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir og spillingu, til að gæta jafnræðis við útdeilingu á almannafé.

Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við þessar embættisfærslur fyrrverandi forsætisráðherra, enda var verið að fúska með fjárlagaliði. Ég man ekki eftir því að nokkur í ríkisstjórn eða hæstv. fjármálaráðherra hafi gert athugasemdir við það.

Við upplifðum það líka í fjárlagavinnunni fyrir árið 2015 og 2016 að meiri hlutinn tók sig til og tók aftur inn alls konar safnliði sem höfðu verið færðir yfir í ráðuneytin og fór að deila út fé til félagasamtaka og ýmissa verkefna, örugglega ágætisverkefni, fram hjá hefðbundnu leiðum.

Nú lesum við enn og aftur fréttir af skúffufé ráðherra, sem ég hafði litið á sem einhvers konar neyðarsjóð þegar eitthvað kæmi upp á. Hæstv. ráðherra hefur svarað því til, það náðist í hann, að ekkert óeðlilegt sé við þetta, það séu verkefni sem falli á milli skips og bryggju. Við erum að tala um 40 milljónir í öllum ráðuneytunum.

Ég verð að segja að mér finnst þetta gríðarlega mikil vonbrigði. Ég hélt að við værum komin á þann stað að við ætluðum að reyna að gæta jafnræðis við útdeilingu á almannafé.

Ég verð að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort honum finnist þetta eðlilegt. Ef menn telja að það séu verkefni sem falla á milli skips og bryggju, t.d. menningarmál á landsbyggðinni, af hverju er þá ekki settur meiri peningur í þann málaflokk þannig að við tryggjum að útdeilingin sé fagleg og jafnræðis gætt, allir geti sótt um styrki, farið sé yfir umsóknir og (Forseti hringir.) geðþóttaákvarðanir og aðgengi að ráðherrum skipti ekki máli? Er hæstv. forsætisráðherra sáttur við þetta?