145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

útdeiling skúffufjár ráðherra.

[14:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þá erum við ekki sammála. Það voru reyndar ekki mín orð að þessi verkefni féllu milli skips og bryggju heldur hæstv. ráðherra. Eftir að þessir safnliðir fóru inn í ráðuneytin hefur mér stundum fundist ýjað að því að þá sé í rauninni ekkert eftirlit með þeim og embættismennirnir hafi þar úr einhverju að spila, en það er ráðherra yfir hverju ráðuneyti sem ber ábyrgð og getur sett verklagsreglurnar. Þessi svör koma mér því töluvert á óvart.

Ég veit að það getur verið að þarna sé verið styrkja ágætisverkefni en mér finnst þetta svolítið eins og menn séu að kaupa sér hollustu, atkvæði jafnvel. Þá vil ég benda á að flokkur eins og Framsóknarflokkurinn fékk 74 milljónir á fjárlögum á síðasta ári fyrir það eitt að vera til og eiga fulltrúa á þingi. Af hverju fara þeir peningar ekki bara úr sjóðum flokkanna? Þetta finnst mér óásættanlegt. Ég hafði skilið það þannig að þetta skúffufé væri einhvers konar varasjóður ef eitthvað kæmi upp, ef bregðast þyrfti við einhverju sem raunverulega væri að falla milli skips og bryggju, ekki fyrir verkefni sem eiga að fara undir þá sjóði og safnliði sem þegar eru til.

Svör ráðherra valda mér vonbrigðum en ég (Forseti hringir.) hef fengið ítrekað hér að honum finnst þetta eðlilegt (Forseti hringir.) og að ef flokkur hans verður áfram við stjórn (Forseti hringir.) verði áfram deilt út pening af skúffufé ráðherra.